KF tapaði á KR-vellinum – Umfjöllun í boði Arion banka

Arion banki í Fjallabyggð er styrktaraðili fréttaumfjallana um Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar lék í dag við Knattspyrnufélag Vesturbæjar á KR-vellinum í Reykjavík í næstsíðustu umferð 3. deildar karla í knattspyrnu. Gríðarleg spenna er á toppnum þessar síðustu umferðir mótsins og mörg lið í góðum séns að tryggja sér sæti í 2. deild að ári. KF var með engan leikmann í banni í þessum leik eins og síðustu leiki, en Ljubomir Delic var þó tæpur fyrir leikinn og byrjaði á bekknum. KF vann fyrri leik liðanna á Ólafsfjarðarvelli í sumar 2-0 og hafði KF ekki tapað í fimm síðustu umferðum Íslandsmótsins.

KV var fyrir leikinn í öruggu sæti fyrir ofan fallsæti og átt ekki séns á að komast upp um deild eins og KF keppir að. Töluverð pressa var því á liði KF fyrir leikinn, enda liðið í góðu færi að tryggja sér 2. sæti deildarinnar.

Heimamenn byrjuðu þó leikinn mun betur og skoruðu fyrsta mark leiksins strax á 8. mínútu, og var það Jón Konráð með sitt fyrsta mark á tímabilinu. Staðan var svo 1-0 í hálfleik, en KF gerði strax skiptingu í hálfleik og útaf fór leikmaður nr. 23, Friðrik Örn og inná kom leikmaður nr. 5, Kristófer Andri. Strax á 3. mínútu síðari hálfleiks þá skora heimamenn aftur og komast í 2-0, og útlitið orðið frekar dökkt fyrir KF. Þjálfari KF reyndi að svara þessu og gerði fjórar skiptingar til viðbótar í síðari hálfleik, en inn vildi boltinn ekki. Lokatölur urðu því 2-0 fyrir KV.

KFG vann sinn leik og komust því upp fyrir KF, sem féll niður í 3. sæti þegar ein umferð er eftir af Íslandsmótinu. Möguleikinn felst núna í því að vinna Dalvík/Reyni í lokaumferðinni og vona að KFG sigri ekki sinn leik.

Hvernig sem síðasta umferðin fer þá hefur lið KF leikið vel síðari hluta mótsins og farið fram úr væntingum margra.

Dalvík/Reynir gerði jafntefli í dag og hefur tryggt sér sæti í 2. deild að ári.

Næsti leikur KF er gegn Dalvík/Reyni á Ólafsfjarðarvelli, laugardaginn 15. september kl. 14:00.