Knattspyrnufélag Fjallabyggðar lék við Knattspyrnufélag Garðabæjar (KFB) í 3. deild karla í knattspyrnu á Ólafsfjarðarvelli í dag. Fyrir leikinn voru liðin jöfn að stigum og var búist við jöfnum og spennandi leik. KF hafði ekki tapað stigum á heimavelli í deildinni í ár, en heimavöllurinn hefur verið sterkur.

Það voru Garðbæingarnir sem skoruðu fyrsta markið á 27. mínútu og leiddu 0-1 í hálfleik. Þegar um sjö mínútur voru eftir af leiknum skoruðu heimamenn, og jöfnuðu leikinn í 1-1, en það var Milan Marinkovic sem skoraði sitt annað mark á mótinu. Það voru hins vegar gestirnir í KFB sem skoruðu sigurmarkið á 88. mínútu, og var það Brynjar Már Björnsson sem það gerði, og var það fyrsta mark hans í meistaraflokki í 40 leikjum. Lokatölur leiksins urðu því 1-2.

KF er eftir leikinn í 6. sæti með 9 stig eftir 6 leiki. KFB skaust hins vegar upp í 3. sætið með þessum sigri. Næsti leikur KF er útileikur gegn Reyni í Sandgerði. Þess má geta að KFB er ungt lið, stofnað árið 2008.