KF sótti þrjú stig í Þorlákshöfn

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar heimsótti Ægi í Þorlákshöfn í dag í 3. deild karla í knattspyrnu. Liðin féllu bæði úr 2. deild í fyrra en í síðustu fjórum innbirðisleikjum liðsins hafa verið tvö jafntefli og einn sigur hjá hvoru liðinu, og hvar því búist við jöfnum leik. Halldór Ingvar markmaður KF skoraði eftirminnilega úr síðasta leik liðinna sem fram fór í september 2016, en hann jafnaði leikinn á 93. mínútu á Ólafsfjarðarvelli. Í þeim leik spiluðu Ægismenn einum færri stóran hluta leiksins, en erfiðlega gekk hjá KF að skora í þeim leik.

Slobodan Milisic þjálfari KF og Bozo Predojevic leikmaður KF voru í leikbanni eftir rauð spjöld í síðasta leik. Örn Elí var skráður sem þjálfari á leikskýrslunni, en hann er 21 árs leikmaður KF.

KF tók forystuna í leiknum með marki úr vítaspyrnu sem kom nokkrum mínútum fyrir leikhlé, úr henni skoraði Aksentije Milisic og var það hans fyrsta mark í deild og bikar í sumar. Nokkrum mínútum síðar skoraði hann aftur, og kom KF í þægilega stöðu og var staðan því 0-2 í hálfleik. KF innsiglaði svo sigurinn þegar rúmlega 12 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik, en markið gerði Jakob Auðun og var það einnig hans fyrsta mark í deild og bikar í sumar. Lokatölur leiksins urðu 0-3, en KF er sem fyrr í 6. sæti, en er nú aðeins þremur stigum frá öðru sætinu.

Næsti leikur KF er gegn nágrönnunum í Dalvík, Dalvík/Reynir og á Dalvíkurvelli fimmtudaginn 13. júlí.