KF sótti dýrmæt stig til Húsavíkur

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti  Völsungi á Húsavík á Vodafone-vellinum í gærkvöldi í 7. umferð 2. deildar karla í knattspyrnu. Völsungur var án sigurs fyrir leikinn og ætluðu að selja sig dýrt á heimavelli. KF hafði unnið tvo leiki og voru með 6 stig fyrir leikinn.

Leikurinn byrjaði fjörlega, bæði lið fengu góð tækifæri á upphafsmínútum leiksins. Heimamenn fengu meðal annars hornspyrnu sem skapaði mikla hættu og reyndi mikið að sækja upp hægri kantinn og beitti ítrekað stungusendingum inn fyrir vörn KF. Gestirnir fengu líka opin færi á upphafsmínútum sem ekki nýttust.

Völsungur fékk hornspyrnu á 33. mínútu sem KF náði að skalla frá en eftir það kom stungusending á Sæþór Olgeirsson sem tók boltann niður á vinstri kanti og skoraði laglega framhjá Halldóri. Einhverjir vildu fá rangstæðu en Jón Óskar spilaði hann réttstæðan og var aftasti leikmaður KF. Staðan 1-0 fyrir heimamenn eftir frekar jafnan leik og góðar rispur hjá báðum liðum.

Seinni hálfleikur var nýbyrjaður þegar KF átti laglega sókn upp vinstri vænginn og barst boltinn frá Bjarka á Theodore Develan Wilson, sem tók boltan laglega á hægri og snéri sér við og skoraði með vinstri fæti, laglegt mark hjá Sachem, hans fjórða mark í sex leikjum fyrir KF. Staðan orðin verðskulduð 1-1 og nóg eftir.

KF átti góða sókn upp hægri kantinn 55. mínútu en leikmaður nr. 7 hjá Völsungi, Guðmundur Óli Steingrímsson stöðvaði sóknina og ætlaði að renna boltanum til baka á markmann Völsungs, en Oumar Diouck leikmaður KF var fljótur að átta sig og hirti boltann og skaut að marki sem var varið, en hann náði frákastinu og renndi boltanum í netið, og staðan orðin 1-2 fyrir KF.

Á 60. mínútu átti KF aðra laglega sókn, Oumar Diouck prjónaði sig í gegnum vörn Völsungs og skoraði annað laglegt mark og kom KF í 1-3. Mjög vel gert hjá Oumar Diouck sem gerði sitt þriðja mark fyrir félagið í sex leikjum.

KF hélt boltanum vel og áttu góðar sóknir í síðari hálfleik. Á 84. mínútu fékk Sæþór Olgeirsson góðan bolta innfyrir vörn KF, hann náði góðu skoti og skoraði sitt annað mark í leiknum, og staðan orðin 2-3 þegar skammt var eftir. Varnarmönnum KF mistókst að skalla frá og náði því Sæþór góðu skoti á markið. Þjálfari KF gerði nokkrar skiptingar undir lok leiksins og í uppbótartíma til að hafa ferskar lappir. Uppbótartíminn fór í 7. mínútur, en KF stjórnaði leiknum og var sigurinn aldrei í hættu.

Völsungar náðu ekki að ógna marki KF sem vann sanngjarnan sigur 2-3 og dýrmæt stig komin í hús. KF spilaði leikinn vel, héldu boltanum vel og vörðust vel. Sóknarlínan var sífellt ógnandi og léku vel á mill sín.

KF er komið í 8. sæti eftir sjö leiki, og eru með 9 stig. Ágætis byrjun á mótinu hjá KF í þessari jöfnu og erfiðu deild. Jákvætt er að markaskorun er að deilast vel á milli manna og liðið hefur verið að spila vel flesta leiki mótsins.

Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.

Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.

Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.

Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.

Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.