KF skoraði sex mörk á Ólafsfjarðarvelli – Umfjöllun í boði Arion banka

Arion banki í Fjallabyggð er styrktaraðili fréttaumfjallana um Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í sumar.

KF og KFG úr Garðabæ mættust á Ólafsfjarðarvelli í gær kl. 15:00 í 10. umferð 3. deildar karla.  Fyrirfram var búist við mjög erfiðum leik en KFG var í 2. sæti deildarinnar og hafði skorað 23 mörk í 9 leikjum, og unnið 6 leiki. Markaskorun KF hafði verið undir pari allt mótið, aðeins 7 mörk í 9 leikjum og 3 sigrar. Veðbankar voru því að reikna með útisigri gestanna í þessum leik. KF var hins vegar á allt öðru máli og létu menn verkin tala þar.

KFG kom ekki með Veigar Pál né Garðar Jóhannsson sem er líklega meiddur í þennan leik. Þeir voru hins vera með sína tvo markahæstu menn í sumar, Jóhann Ólaf og Magnús Björgvinsson sem báðir áttu eftir að skora í þessum leik.

Gestirnir byrjuðu leikinn betur og náðu að skora strax á 3. mínútu leiksins með marki frá Magnúsi Björgvins, hans sjötta mark í sumar. Eftir rúman hálftíma svöruðu KF strákarnir þessari góðu byrjun KFG með tveimur mörkum, Jakob Auðun skoraði á 37. mínútu og jafnaði leikinn í 1-1. Aðeins tveimur mínútum síðar skorar KF aftur með marki frá Aksentije Milisic, hans þriðja mark í deild og bikar í sumar. KF leiddi 2-1 í hálfleik og útlitið gott.

Í upphafi síðari hálfleiks gerir KFG tvöfalda skiptingu til að hressa upp á leik sinna manna. Á 59. mínútu jafna þeir leikinn með marki frá Jóhanni Ólafi, hans 7 mark í sumar og staðan orðin 2-2  þegar rúmur hálftími er eftir af leiknum.

Nú tekur við ótrúlegur kafli hjá KF en Björn Andri Ingólfsson gerir fjögur mörk, það fyrst kom á 67. mínútu og kemst KF í 3-2, aðeins fjórum mínútum síðar gerir Björn Andri sitt annað mark, og staðan orðin 4-2 og tæplega 20 mínútur eftir. Á 82. mínútu skorar Björn aftur, og staðan 5-2. Á næstu mínútum gerir KF þrjár skiptingar og fékk m.a. Halldór Ingvar markmaður hvíld í nokkrar mínútur. Í uppbótartíma gerir KF lokamarkið og var Björn þar að verki og innsiglaði hann þennan stórsigur á KFG, 6-2. Frábær ferna hjá Birni Inga og KF sýnir það enn og aftur að þeir eru óútreiknanlegir á heimavelli. KF náði að laga markatölu sína í þessum leik og eru nú með 13 mörk skoruð og 13 mörk fengin á sig. Liðið er nú í 7. sæti með 13 stig þegar 8 leikir eru eftir. Aðeins sex stig skilja á milli 4. sætið og 8. sætið. En KF hefur fjarlægst botninn með þessum sigri og eru nú sex stig í fallsætið. Glæsilegur fjórði sigur KF í sumar í 10 leikjum.

Næsti leikur KF er gegn Augnablik í Fagralundi, laugardaginn 21. júlí.