KF skoraði 8 mörk gegn Skallagrími – Umfjöllun í boði Aðalbakarís og Arion banka

Aðalbakarí Siglufirði og Arion banki í Fjallabyggð styðja við umfjöllun um leiki KF í sumar. Aðalbakarí er aðalstyrktaraðili og Arion banki er styrktaraðili allra frétta um KF í sumar.

KF mætti Skallagrími á Ólafsfjarðarvelli í kvöld í 15. umferð Íslandsmótsins í 3. deild. Liðin mætust í maí mánuði og vann KF þá 0-1 sigur í Borgarnesi og gekk erfiðlega að brjóta niður varnarmúr Skallagríms í þeim leik. KF hefur gengið vel í undanförnum leikjum, en Skallagrímur var í neðsta sætinu fyrir þennan leik og aðeins með tvö sigra í 14 leikjum.

Þjálfari KF gerði fjórar breytingar á byrjunarliðinu frá síðasta leik, en inn í liðið komu Óliver, Andri Snær, Sævar Þór og Birkir Freyr.

Leikurinn var rétt byrjaður og þeir sem voru seinir á völlinn misstu af fyrsta markinu hið minnsta, en Andri Snær skoraði á 2. mínútu leiks og gaf tóninn, hans fyrsta mark fyrir félagið í 29 leikjum. Aksentije Milisic skoraði annað mark KF á 15. mínútu og kom þeim í 2-0, hans fyrsta mark í sumar. Alexander Már skoraði á 22 mínútu og kom KF í 3-0. Jordan Damachoua kom KF í 4-0 á 33. mínútu. Valur Reykjalín kom svo KF í 5-0 á 38. mínútu. Skallagrímur skoraði á 43. mínútu og minnkaði muninn í 5-1 og þannig var staðan í hálfleik. Ótrúlegir yfirburðir KF í þessum fyrri hálfleik.

KF hélt áfram að skapa færi í síðari hálfleik og Alexander Már var ekki hættur að skora og skapa, hann kom KF í 6-1 á 49. mínútu og 7-1 á 55. mínútu og skoraði þar með sitt 18. mark í sumar í 15 leikjum.

KF gat leyft sér að gera nokkrar skiptingar eftir þetta sjöunda mark og róaðist leikurinn, en Jakob Auðun kom inná fyrir Jordan á 62. mínútu og Grétar Áki fyrir Val Reykjalín á 63. mínútu. Þorsteinn Már kom inná fyrir Sævar Þór á 70. mínútu og átti eftir að koma sterkur inn.

Tómas Veigar fékk svo tækifæri og kom inná fyrir Aksentije Milisic og Ljubomir Delic kom inná fyrir Vitor á 84. mínútu. Þorsteinn Már skoraði svo í uppbótartíma og innsiglaði stórsigur KF, 8-1, en þetta var hans fyrsta mark fyrir félagið í 13 leikjum.

Frábær leikur fyrir KF og er liðið nú komið með 35 stig í 2. sæti deildarinnar.