Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og KA-3 kepptu í B-deild Kjarnafæðismótsins nú um helgina. Bæði lið höfðu leikið tvo leiki fyrir þennan leik en KA-3 voru án stiga en KF hafði náð einu jafntefli og var því með 1 stig. Í liði KA-3 eru strákar fæddir frá 1999-2002 og leika með 2. flokki félagsins. Töluvert meiri reynsla er í liði KF, en í bland við yngri leikmenn og leikmanna á reynslu.
KA strákarnir byrjuðu betur og skoruðu fyrsta mark leiksins á 10. mínútu, og annað mark á 14. mínútu. KA voru meira með boltann í fyrri hálfleik og betra liðið. Staðan var 2-0 í hálfleik en Slobodan þjálfari KF hefur lesið yfir sínu liði því KF mættu mun ákveðnari í síðari hálfleik, voru meira með boltann og sóttu hratt á KA strákana. KF minnkaði muninn í 2-1 á 68. mínútu með marki frá Kristófer Andra. KF fékk svo víti á 75. mínútu og úr því skoraði Jón Árni og jafnaði leikinn í 2-2. Fimm mínútum síðar, eða á 80. mínútu, þá tekur KF hornspyrnu og boltinn berst að lokum til Grétars Áka sem hamrar boltann óverjandi í netið, og kemur KF í 2-3. KF náði að halda út og unnu góðan sigur og voru mun betra liðið í síðari hálfleik.