Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Þór-2 mættust á opnunarleik Norðurlandsmótsins, Kjarnafæðismótsins í gær í Boganum á Akureyri. Bæði lið stilltu upp ungum leikmönnum í þessum leik. KF hefur nokkra stráka á reynslu og láni sem eru að fá tækifæri á þessu móti og áttu eftir að koma við sögu í þessum leik. Halldór Ingvar var kominn aftur í markið hjá KF eftir meiðsli í sumar og eru það góðar fréttir fyrir liðið. Lubomir Delic er að spila undirbúnings tímabil fyrir KF í fyrsta sinn en hann er vanur að koma til móts við liðið skömmu fyrir Íslandsmótið, en er nú sestur að í Fjallabyggð. Á bekknum hjá KF voru þrír 14 ára leikmenn og þrír 15 ára leikmenn.

Markalaust var í fyrri hálfeik en Þórsarar skoruðu fyrsta markið á 66. mínútu og var þar að verki Aðalgeir Axelsson. Þjálfari KF gerði tvær skiptingar eftir markið og inná komu tveir ungir leikmenn, annar 15 hinn 14 ára sem eru lánsmenn frá KA. KF jafnaði leikinn á 75. mínútu og var það hinn ungi Elvar Guðmundsson sem markið gerði, en hann er fæddur árið 2006. Á 85. mínútu gerði KF sitt annað mark og var það Andri Morina, leikmaður sem eru á reynslu hjá KF. Staðan orðin 2-1 og skammt eftir af leiknum. Mörkin urðu ekki fleiri og KF vann fyrsta leik mótsins og fengu margir ungir leikmenn góða reynslu frá þessum leik.

Myndlýsing ekki til staðar.