KF sigraði Einherja á Ólafsfjarðarvelli – Umfjöllun í boði Arion banka
Arion banki í Fjallabyggð er styrktaraðili fréttaumfjallana um Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í sumar.
Einherji frá Vopnafirði kom í heimsókn á Ólafsfjarðarvöll í kvöld. Heimamenn í KF voru tilbúnir í slaginn. Leikurinn var í 12. umferð Íslandsmótsins, en mótið er stutt í 3. deildinni, og hver sigur mjög dýrmætur. Stutt er í efstu liðin þrátt fyrir að KF hafi verið í neðri hluta deildarinnar í mest allt sumar, þá þarf ekki nema 2 sigra til að nálgast baráttuna í efstu sætunum og hagstæð úrslit annara liða.
Ólafsfjarðarvöllur var aðeins blautur í þessum leik, hiti var um 10 stig og raki um 94% ásamt léttum úða meðan á leik stóð. Einherji hefur haft eitthvað tak á KF í síðustu viðureignum liðana, en Austfirðingarnir höfðu unnið síðustu þrjá deildarleiki liðinna, en KF vann þá sannfærandi 3-0 í vor í deildarbikarnum þar sem liðin mættust. KF hafði unnið fjóra af síðustu 5 heimaleikjum en Einherji hafði tapað öllum fjórum útileikjum sínum til þessa.
Markahæsti maður KF, Björn Andri byrjaði leikinn óvænt á bekknum og nýr leikmaður Austin Diaz byrjaði inn á eftir góða frammistöðu í síðasta leik.
Það voru gestirnir sem skoruðu fyrsta markið á 29. mínútu, en það gerði Gunnlaugur Baldursson, hans þriðja mark í sumar. Heimamenn voru fljótir að svara og skoraði Grétar Áki aðeins 4 mínútum síðar, sitt annað mark í sumar. Markið var nokkuð sögulegt, en þetta var “fljótasta” markið sem KF gerir í sumar, þeir höfðu áður aðeins skorað 3 mörk í fyrri hálfleik, og var það fljótasta á 37. mínútu fram að þessu. – Vel gert Grétar Áki !
Staðan var 1-1 í hálfleik, en á upphafsmínútum síðari hálfleiks þá fengu gestirnir vítaspyrnu, en Halldór Ingvar lokaði markinu enn einu sinni og hélt KF inni í leiknum. Á 72. mínútu þá skorar Austin Diaz sitt annað mark fyrir félagið í tveimur leikjum, og kemur KF í 2-1. Halldór Logi kom inn á sem varamaður fyrir KF þegar um 12 mínútur voru eftir, en hann skoraði nánast í sinni fyrstu snertingu og kemur KF í 3-1 þegar skammt er eftir af leiknum. Hans þriðja mark sumar. KF landaði dýrmætum sigri og fengu þrjú stig í pottinn í kvöld en Einherjamenn fóru í langa rútuferð til Vopnafjarðar með engin stig í þetta skiptið.
KF er í 7. sæti eftir þennan sigur, en Augnablik á leik til góða. Næsti leikur KF er gegn Sindra þann 12. ágúst, og verður leikið á Hornafirði.