KF sigraði Dalvík en endar í 3. sæti – Umfjöllun í boði Arion banka

Arion banki í Fjallabyggð er styrktaraðili fréttaumfjallana um Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Dalvík/Reynir mættust á Ólafsfjarðarvelli í dag í lokaumferð 3. deildar. Þetta var einn af þessum leikjum liðanna sem allt var undir. KF þurfti nauðsynlega á sigri að halda til að eiga möguleika að fylgja Dalvík/Reyni upp í 2. deild að ári. KF stillti upp sínu sterkasta liði í dag og ætluðu sér sigur.

KF byrjaði leikinn vel og var betra liðið á vellinum. Hvorugu liðinu tókst að skora í fyrri hálfleik, og var því staðan 0-0 þegar dómarinn flautaði til leikhlés. Síðari hálfleikur byrjaði svo með látum, þegar KF fékk dæmda vítaspyrnu á 51. mínútu. Aksentije Milisic (nr. 7) tók spyrnuna og skoraði af öryggi, og staðan orðin 1-0 fyrir heimamenn. Dalvíkingar gerðu hvað þeir gátu til að freista þess að jafna leikinn og skiptu þremur leikmönnum inn þegar leið á síðari hálfleikinn. KF var hinsvegar sterkara liðið og bættu við marki á 85. mínútu þegar Friðrik Örn (nr. 23) skoraði og kom KF í 2-0 þegar skammt var eftir. Var þetta hans annað mark í 13 leikjum í sumar fyrir félagið. Jóhann Örn (nr. 9) minnkaði muninn á 90. mínútu fyrir Dalvíkinga, og staðan 2-1 þegar aðeins uppbótartími var eftir. Á 93. mínútu þá fékk Aksentije Milisic rautt spjald hjá KF, en það kom ekki af sök, og urðu lokatölur 2-1 fyrir KF.

Því miður þá voru önnur úrslit ekki hagstæð þar sem KFG sigraði KV 3-2 og kom sigurmarkið á allra síðustu mínútum leiksins. Það verða því Dalvík/Reynir og KFG sem spila í 2. deild á næsta ári og Ægir féll úr deildinni.

Þetta var í fyrsta sinn síðan árið 2012 sem 32 stig duga til að sigra deildina.

Stuðningsmenn Dalvíkinga fögnuðu ógurlega í stúkunni þegar ljóst var að KF væri ekki að fylgja Dalvíkingum upp um deild og eins voru nokkrir leikmenn Dalvíkur sem urðu sér til skammar og komu hlaupandi og öskrandi að leikmönnum KF eftir leikinn og gerðu lítið úr því að KF væri ekki að fara upp um deild. Svona framkoma er algjörlega óþörf hjá þessum nágrannaliðum.