Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Völsungur frá Húsavík mættust á PCC vellinum á Húsavík í dag í Lengjubikarnum. Völsungur var að spila sinn fyrsta leik í riðlinum en KF hafði leikið einn leik en var án stiga fyrir leikinn. Þessi leikur átti upphaflega að fara fram í fyrstu umferð mótsins en var frestað.

KF og Völsungur eru lið sem hafa mæst yfir 30 sinnum á síðustu 10 árum og þekkja því vel til hvors annars.  Leikir þeirra hafa verið jafnir síðustu árin og var  þessi leikur engin undantekning.

Grétar Áki var kominn aftur í byrjunarliðið hjá KF var fyrirliði liðsins í þessum leik.  Nokkir leikmenn sem nýlega hafa gengið til liðs við KF voru á bekknum og áttu eftir að koma við sögu í leiknum.

Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik þrátt fyrir nokkur færi beggja liða, KF byrjaði fyrri hálfleik vel en Völsungur komst betur inn í leikinn þegar leið á fyrri hálfleik. Staðan var 0-0 í hálfleik.

KF gerði eina skiptingu í hálfleik þegar Sindri kom inná fyrir Þorstein Má.  Um miðjan síðari hálfleik komu svo þrír ungir leikmenn inná og fengu gott tækifæri til að sýna sig og sanna.

Völsungur fékk svo óbeina aukaspyrnu innan teigs KF á 82. mínútu og úr henni skoraði Adolf Mtasingwa Bitegeko með skoti beint í skéytin og kom heimamönnum í forystu 1-0 þegar skammt var eftir.

KF náði ekki að jafna leikinn og vann því Völsungur 1-0 og er KF án stiga eftir tvo leiki í Lengjubikarnum.