KF og Þróttur Vogum mættust á Ólafsfjarðarvelli

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Þróttur Vogum mættust á Ólafsfjarðarvelli í dag í 20. umferð Íslandsmótsins í 2. deild. Þróttur hefur verið í toppbaráttu í allt sumar og eiga góðan möguleika að komast upp. Það var því talsverð pressa á þeim að sækja góð úrslit til Ólafsfjarðar í þessum leik.  Liðin mættust í september og vann þá Þróttur öruggan 4-0 sigur, en KF strákarnir voru staðráðnir í að láta það ekki endurtaka sig í þessum leik. Hermann Hreiðarsson er þjálfari Þróttar og hefur hann gert mjög góða hluti með liðið í sumar. KF strákarnir hafa einnig átt gott sumar þrátt fyrir slitrótt Íslandsmót, og náð góðum sigrum.

Sindri var áfram í markinu, en Halldór er enn frá vegna meiðsla. Miloudi var byrjaði leikinn á bekknum, en annars var hefðbundið byrjunarlið hjá KF.

Þróttararnir voru hættulegir með föstu leikatriðin í þessum leik en KF náði að verjast þeim vel. Fyrsta mark leiksins kom á 60. mínútu þegar Þróttur fékk hornspyrnu eftir talsverða pressu. Boltinn barst út í teig og markaskorarinn Alexander Helgason skoraði sitt 10 mark í deildinni, framhjá varnarmönnum KF og Sindra. Staðan 0-1 og um hálftími eftir.

Tveimur mínútum seinna komst KF í góða sókn og kom hár bolti frá hægri kanti inn á vítateig Þróttara þar sem Oumar tók boltann vel niður en var togaður niður í leiðinni og dómarinn dæmdi strax víti. Þróttarar voru ekki sáttir og hópuðust að dómaranum. Oumar Diouck tók vítið og markmaður Þróttar varði vel en missti boltann frá sér og Oumar tók frákastið og skoraði gott mark, og sitt 12 í sumar í 19 leikjum. Staðan aftur orðin jöfn, 1-1.

Þjálfari KF fylgdi markinu eftir með skiptingu og setti Miloudi inná fyrir Þorstein Má og skömmu síðar Halldór Mar inná fyrir Jón Óskar. KF gerði svo tvær skiptingar í uppbótartíma, en fleiri urðu mörkin ekki, niðurstaðan 1-1 jafntefli. KF er í 6. sæti deildarinnar með 26 stig og eru öruggir með sæti í deildinni á næsta ári.

Góð barátta og fínn leikur hjá KF, en því miður urðu mörkin ekki fleiri.