KF og KV mættust á Ólafsfjarðarvelli – Umfjöllun í boði Siglufjarðar apóteks og ChitoCare Beauty

Umfjöllun um leiki KF eru í boði Siglufjarðar apóteks og ChitoCare Beauty sem eru aðalstyrktaraðilar, smellið á tenglana til að sjá vöruframboðið og þjónustu þeirra á netinu.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti liði KV úr Vesturbæ Reykjavíkur í dag á Ólafsfjarðarvelli í 7. umferð Íslandsmótsins. Sigur fyrir bæði lið gat þýtt toppsætið og toppbarátta, en KF hefur byrjað mótið ágætlega og var í 2. sæti fyrir leikinn en hafði þó aðeins gert jafntefli í síðustu tveimur leikjum. Lið KV var ósigrað í fyrstu umferðir mótsins og því til alls líklegt. Liðin mættust síðast fyrir tveimur árum í 3. deildinni, en þá unnu liðin sinn heimaleik.

Þjálfari KV er Sigurvin Ólafsson fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmaður. Þekktasti leikmaður KV er líklega Ingólfur Sigurðsson, sem hefur leikið fyrir KR og Val í efstudeild auk fleiri liða.

Það vantaði nokkra leikmenn KF í þennan leik sem voru frá vegna meiðsla og veikinda. Grétar Áki var hvergi sjáanlegur á leikskýrslu, og munar um minna á miðsvæðinu. Það voru aðeins 4 leikmenn á varamannabekk í þessum leik hjá KF en þeir hafa haft góða breidd í hópnum í ár og bekkurinn verið sterkur. Óvanalegt að sjá ekki fleiri varamenn á leikskýrslu á heimaleik KF.

Dómari leiksins hafði nóg að gera í leiknum og gaf þrjú gul spjöld til KF í fyrri hálfleik. Hvorugu liðinu tókst að nýta færin sín í fyrri hálfleik og var staðan 0-0 þegar dómarinn flautaði til leikhlés. Þrátt fyrir markaleysi var hart barist í þessum leik og ekkert gefið eftir.

Á sextándu mínútu síðari hálfleiks skoruðu gestirnir fyrsta mark leiksins en það var Vilhjálmur Kaldal Sigurðsson sem það gerði, hans 5 mark í 7 leikjum í deildinni í sumar.

Þjálfari KF gerði strax breytingu eftir markið og gerði tvöfalda skiptingu á 61. mínútu þegar hinn leikni Andi Morina og hinn grjótharði Hákon Leó Hilmarsson voru settir inná til að reyna breyta gangi leiksins. Útaf fóru Birkir Már Hauksson og Þorsteinn Már Þorvaldsson. KF nældi sér í tvö spjöld í viðbót á meðan KV fékk aðeins eitt, og var staðan í gulum spjöldum orðin 5-1 KF í vil, en mörkin telja. Þegar tæpar 20 míntútur voru eftir af leiknum fékk KF á sig víti, annan leikinn í röð og Ingóflur Sigurðsson tók vítið og skoraði og kom KV í 0-2.

Þjálfari KF gerði strax aðra skiptingu eftir markið og kom Alexander Örn Pétursson inná fyrir Sævar Gylfason, og voru þar með allir varamenn KF komnir inná nema varamarkmaður liðsins.

KV gerði fjórar skiptingar eftir að seinna markið kom og nýttu þeir sína varamenn vel. KV náði sér í tvö gul spjöld seint í síðari hálfleik og endaði dómarinn því að gefa 8 gul spjöld í leiknum.

KF náði ekki að minnka muninn á lokamínútunum eins og oft áður og vann því KV sigur í þessum leik 0-2 og komu sér í toppsætið ásamt Reyni en KF féll niður í 6. sæti í þessari jöfnu deild.

KF leikur næst í deildinni við Njarðvík 26. júní og Fjarðabyggð 30. júní á Ólafsfjarðarvelli. Bikarleikur gegn Haukum verður samt næst á dagskrá, þann 22. júní á Ólafsfjarðarvelli.

Image
Blóð, sviti og tár. Treyja KV eftir leikinn. Mynd frá KV.

 

<