Yngri flokkar í sameiginlegum liðum KF og Dalvíkur léku alls 10 leiki á ReyCup í Reykjavík í dag. Veður var ágætt, en vellirnir voru blautir í morgun og síðdegis komu skúrir. Leikirnir dreifðust um höfuðborgina, frá Framvellinum í Álftamýri, að Leiknisvellinum í Breiðholtinu, en aðalmóttsvæðið er í Laugardalnum þar sem flestir vellirnir eru. Riðla keppni er nú að ljúka og tekur úrslitakeppni við.

Stelpurnar í 4. flokki (2. styrkleiki) tóku daginn snemma og áttu fyrsta leik dagsins við Breiðablik-2. KF/Dalvík stelpurnar léku vel og höfðu yfirhöndina í leiknum og voru yfir í hálfleik. Þegar um 5-10 mínútur voru eftir af síðari hálfleik komust þær í 2-0 en Blika stelpurnar minnkuðu muninn þegar nokkrar mínútur voru eftir og sóttu fast að stelpunum. Töluverð spenna var síðustu mínúturnar en KF/Dalvík vann leikinn 2-1. Virkilega flottur leikur hjá stelpunum sem áttu gott spil og börðust um alla bolta.

3. flokkur kvenna lék við Selfoss á Framvellinum í morgun, og tapaðist leikurinn 0-3. Stelpurnar eru án sigurs eftir þrjá leiki og hafa ekki náð að skora mark á mótinu.

4. flokkur drengja í 2. styrkleika lék við KA-2 í Laugardalnum og úr varð markaveisla en KA vann leikinn örugglega 7-2.

3. flokkur karla lék við heimamenn í Þrótti í 2. styrkleika, og voru heimamenn sterkari og unnu 4-0.

4. flokkur drengja í 1. styrkleika lék við Grindavík á Leiknisvelli í kaflaskiptum leik, en Grindavík kláraði leikinn í síðari hálfleik og unnu 2-6.

4. flokkur stúlkna( 2. styrkleiki) lék annan leik við Breiðblikslið síðdegis og aftur höfðu KF/Dalvík stelpurnar betur í jöfnum leik sem endaði 2-3 fyrir norðanstelpurnar.

3. flokkur karla (Styrkleiki 2) lék við ÍA kl. 14:00 á Framvellinum og voru lokatölur 0-5 fyrir Skagastrákana. Liðið hefur nú leikið þrjá leiki en eiga enn eftir að skora mark og vinna leik.

4. flokkur drengja í 2. styrkleika léku annan leik síðdegis í dag og nú gegn Selfossi á Leiknisvelli. Selfoss strákarnir voru talsvert heppnari fyrir framan markið og unnu 7-1.

4. flokkur drengja í 1. styrkleika léku við KA-2 síðdegis í dag og var léttur úði og blautur völlur á þessum tíma og því mikið um hættulegar tæklingar. KF/Dalvík strákarnir léku á alls oddi og nýttu færin vel og unnu stórsigur 7-0 á KA strákunum í þessum leik. KA missti einn mann af velli í síðari hálfleik fyrir mótmæli og grófa tæklingu í kjölfarið. Ekki oft sem rauða spjaldið fer á loft á þessu móti, en hér var ekki annað í boði. Talsverður hiti var í leiknum á tímabili og fastar tæklingar og ekkert gefið eftir. KF/Dalvík bjargaði einu sinni á línu og skoruðu eitt mark úr víti. Þeir nýttu föstu leikatriðin vel og komu nokkur mörk eftir vel teknar aukaspyrnur inn í teig.

4. flokkur stúlkna í 2. styrkleika léku sinn þriðja leik kl. 18:00 í dag og áttu þær þétt erfiðasta daginn miðað við fjölda leikja, en stóðu sig frábærlega í dag. Síðasti leikur þeirra var gegn Völsungi í Laugardalnum og endaði leikurinn með 1-1 jafntefli.

Fleiri leikir verða á morgun. Myndir dagsins koma frá leik 4. flokki kvenna gegn Breiðablik og 4. flokki drengja gegn KA.