Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Dalvík/Reynir mættust í gær í B-deild Kjarnafæðismótsins, en leikið var í Boganum á Akureyri. Dalvík/Reynir var að leika sinn annan leik á mótinu en liðið sigraði KA3 í fyrsta leik. KF var að spila sinn fyrsta leik í mótinu. Það er alltaf fjör og læti þegar þessi lið mætast, enda nágrannalið, en þau leika bæði í 3. deildinni í sumar.

KF gerði fyrsta mark leiksins í upphafi síðari hálfleiks. Markið kom eftir stungusendingu inn fyrir vörn Dalvíkur og skoraði sóknarmaður KF úr þröngu færi. Það var nokkuð hart tekist á í þessum leik, en eftir mikla pressu á lokamínútum leiksins þá fær Dalvík gott færi og skorar, en markamaður KF hefði átt að gera betur og missir boltann inn. Dalvík hafði legið töluvert á KF síðustu mínútur og reyndi KF að halda út en markið kom eftir innkast og fyrirgjöf þar sem KF náði ekki að hreinsa nægjanlega vel frá og lék Fannar Daði á einn varnarmann KF og fékk of mikinn tíma inn í teignum og kláraði færið með góðu skoti. Lokatölur 1-1.