KF náði aðeins jafntefli við Þór 2 á Norðurlandsmótinu

Þór2 1 -1 KF
0-1 Þórður Birgisson (’30)
1-1 Ingólfur Árnason (víti ’58)

Lið Þórs 2 og KF sættust á skiptan hlut í síðasta leik fyrstu umferðar Norðurlandsmótsins (Hleðslumótsins) sem fram fór í Boganum í dag. Jafnræði var með liðunum framan af leik en um miðjan fyrri hálfleik náðu leikmenn KF undirtökunum. Þórsarar skiptu svo um markmann á 6. mínútu sem hélt þeim inní leiknum.

Á 30. mínútu fékk KF dæmda aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig Þórsara. Þórður Birgisson tók spyrnuna og skoraði með laglegu skoti í nærhornið. Átta mínútum síðar tókst Þórði að spóla sig í gegnum vörn Þórs en Hristo Slavkov markvörður Þórsara varði boltann í stöng.  Staðan var því 1-0 í hálfleik fyrir KF.

Síðari hálfleikur var nokkuð svipaður þeim fyrri og KF var sterkari aðilinn og tókst að skapa sér nokkur marktækifæri meðan sóknarleikur Þórsara var heldur máttlaus. Á 57. mínútu fá Þórsarar dæmda vítaspyrnu eftir að varnarmaður KF hafði togað sóknarmann Þórs niður í vítateignum.

Ingólfur Árnason steig á punktinn og jafnaði leikinn með góðri spyrnu. Hættulegasta færi KF-inga í síðari hálfleik fékk Þórður Birgisson á 74. mínútu þegar hann slapp einn í gegnum varnarlínu Þórsara en Hristo sá við honum í markinu. Í uppbótartíma leiksins fékk Þórður, leikmaður KF, svo að líta beint rautt spjald fyrir kjaftbrúk en hann hafði áður fengið gult spjald á 19. mínútu.