KF með stórsigur á heimavelli

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Vængir Júpíters áttust við á Ólafsfjarðarvelli í dag, en leiknum var rétt að ljúka. Frábærar aðstæður voru í Ólafsfirði og hitinn tæpar 16 gráður. Fyrir leikinn hafði KF fengið lánsmann frá Þór, en það er Jakob Snær Árnason og var hann kominn með leikheimild og var settur beint í byrjunarliðið. Jakob er tvítugur og lék með KF upp yngri flokkana en skipti yfir í Þór þegar hann var í 3. flokki.

Það vakti athygli að Ljubomir Delic, markahæsti maður KF byrjaði á bekknum. KF byrjaði leikinn betur og skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik, og var það lánsmaðurinn Jakob Snær í sínum fyrsta leik fyrir meistaraflokk KF. Heimamenn leiddu 2-0 í hálfleik, en mörkin komu á 27. og 32. mínútu.

KF héldu áfram að vera sterkara liðið og skoraði varamaðurinn Jón Árni Sigurðsson þriðja mark liðsins á 61. mínútu, og hans fyrsta mark í 24 leikjum fyrir KF, en hann kom inná á 27. mínútu leiksins fyrir Milan Marinkovic. Aðeins 8 mínútum síðar skoraði Vitor Vieira Thomas og kom KF í 4-0, en þetta var þriðja mark hans fyrir KF í sumar.  Á 75. mínútu skoraði svo Jakob Snær Árnason sitt þriðja mark í leiknum og innsiglaði 5-0 sigur KF.

KF er nú í 2. sæti í 3. deildinni með með 21 stig, en Kári er með 24 stig í 1. sæti.