Umfjöllun um leiki Knattspyrnufélags Fjallabyggðar í vor og sumar verða í boði Siglufjarðar apóteks sem eru aðalstyrktaraðili. Siglufjarðar Apótek leggur mikla áherslu á að bjóða framúrskarandi og persónulega þjónustu og vörur á góðu verði. Siglufjarðar Apótek var stofnað árið 1928 og er elsta starfandi apótek landsins í einkaeigu.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Völsungi í 16. umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu á föstudaginn var. Leikurinn var mikilvægur fyrir bæði lið, en Völsungur berst við Ægi og Þrótt um 2. sæti í deildinni og KF vantar fleiri sigra til að koma sér í baráttunna í miðri deildinni. Völsungur hafði aðeins unnið einn útisigur af 8 á mótinu en sú tölfræði gaf ákveðna von fyrir leikinn fyrir heimamenn. KF hefur átt erfitt mót og gengið illa að sækja stig undanfarið og hafði tapað tveimur leikjum í röð fyrir þennan leik.

Völsungur var með næst markahæsta mann deildinnar í byrjunarliðinu og það þurfti að hafa gætur á honum í þessum leik. Liðin höfðu mæst tæplega 30 sinnum á síðustu 11 árum á hinum ýmsu mótum og þekkja vel til hvors annars, og hafa þessir leikir jafnan verið miklir markaleikir og lítið gefið eftir. Völsungur vann fyrri leik liðinna fyrr í sumar 3-2 á Húsavík.

Varamarkmaður KF var áfram í byrjunarliðinu eins og síðustu leiki en Javon Sample var þó kominn á bekkinn í þessum leik.

KF byrjaði leikinn betur og skoruðu strax á 12. mínútu þegar Ljubomir Delic kláraði færið vel og var staðan 1-0. Aðeins tólf mínútum síðar var Julio Cesar Fernandes leikmaður KF rekinn af velli með beint rautt spjald og lék KF því einum leikmanni færri frá 24. mínútu leiksins og hafði það töluverð áhrif. KF hélt þó velli í fyrri hálfleik og lokaði svæðunum vel og leiddu 1-0.

Þjálfari KF gerði eina skiptingu í hálfleik og kom hinn grjótharði vinstri bakvörður, Hákon Leó Hilmarsson inná fyrir Symon Ericksen, en þeir hafa keppt um stöðuna í allt sumar.

KF þétti vörnina í síðari hálfleik og lágu til  baka og reyndu að beita skyndisóknum en Völsungur þyngdi sóknina eftir því sem leið á síðari hálfleik.

Stíflan brast á 79. mínútu þegar Áki Sölvason, markahæsti maður Völsungs á Íslandsmótinu skoraði og jafnaði leikinn í 1-1 þegar rúmar 10 mínútur voru eftir auk uppbótartíma. KF gerði skiptingu skömmu eftir jöfnunarmarkið þegar Sævar Þór Fylkisson kom inná fyrir Þorstein Má Þorvaldsson.

Færðist nú menn meira líf í gestina sem þrýstu á vörn heimamenna allt til leiksloka. Það var reynsluboltinn Baldur Sigurðsson sem skoraði úrslitamark leiksins á 90. mínútu og kom gestunum í 1-2 þegar aðeins uppbótartími var eftir. KF náði ekki að skora á þeim tíma og unnu gestirnir 1-2 og fóru heim með þrjú stig.

KF er enn með 15 stig í þriðja síðasta sæti deildarinnar, 5 stigum frá fallsæti.

KF leikur næst útileik gegn Magna á miðvikudaginn, og er það gríðarlega mikilvægur leikur fyrir bæði lið en Magni er í neðsta sæti deildarinnar.