Umfjöllun um leiki Knattspyrnufélags Fjallabyggðar í vor og sumar verða í boði Siglufjarðar apóteks sem eru aðalstyrktaraðili. Siglufjarðar Apótek leggur mikla áherslu á að bjóða framúrskarandi og persónulega þjónustu og vörur á góðu verði. Siglufjarðar Apótek var stofnað árið 1928 og er elsta starfandi apótek landsins í einkaeigu.
Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Víkingi Ólafsvík á Ólafsfjarðarvelli í 8. umferð Íslandsmótsins í 2. deild karla. Víkingur hefur ekki byrjað mótið vel og aðeins unnið einn leik eins og KF og kom sá sigur í síðustu umferð. Liðið hafði árin áður náð stöðugleika í 1. deild og efstudeild. KF hefur ekki mætt Víkingi Ólafsvík áður í deildar- eða bikarleik samkvæmt upplýsingum á vef KSÍ.
KF fékk á sig fimm mörk í síðasta leik og bjuggust einhverjir við breytingum á byrjunarliðinu fyrir þennan leik, en aðeins var gerð ein breyting, og kom Hákon Leó Hilmarsson inn í varnarlínuna fyrir Symon Ericksen sem var settur á bekkinn. Sævar Gylfason bar fyrirliðabandið í þessum leik fyrir KF.
Víkingur var í 10. sæti fyrir þennan leik en gátu með sigri komist í 8. sæti, en KF gat með sigri styrkt stöðu sína í 7. sætinu, en bæði lið þurftu á sigri að halda í þessum leik. Andri Már Sólbergsson er markahæstur í liði Víkings í deildinni með 4 mörk og var hann í byrjunarliðinu í þessum leik og í treyju númer 9.
Loksins var hægt að leika á Ólafsfjarðarvelli, en heimaleikir KF hafa farið fram við góðar aðstæður á Dalvíkurvelli í byrjun mótsins.
KF fékk draumabyrjun og voru strax komnir yfir á 5. mínútu leiksins þegar Þorvaldur Daði Jónsson skoraði sitt fjórða mark í deildinni í sumar, en strákurinn hefur leikið vel að undanförnu fyrir KF.
Á 26. mínútu fékk Aron Elí Kristjánsson beint rautt spjald eftir brot og var KF því einum leikmanni færri eftir það. Erfitt að missa mann útaf svona snemma leiks, en þetta fer í reynslubankann hjá drengnum. Gestirnir voru fljótir að nýta sér liðsmuninn og skoruðu aðeins nokkrum mínútum síðar og jöfnuðu leikinn 1-1. Tveir leikmenn KF og einn leikmaður Víkings fengu að auki gult spjald í fyrri hálfleik og voru þeir því á hættu svæði í síðari hálfleik.
Það var hart barist í síðari hálfleik og var dómarinn í stóru hlutverki að veifa gulum spjöldum en fjögur gul spjöld komu á fyrsta korterinu. Það var hins vegar framherjinn Julio Cesar Fernandes sem kom KF aftur yfir á 61. mínútu með sínu fimmta marki í deildinni í sumar, en hann hefur komið sterkur inn í liðið á sínu fyrsta tímabili á Íslandi. Staðan orðin 2-1 og tæpur hálftími eftir og KF manni færri.
Guðjón Þórðarson var ósáttur með gang mála hjá Víkingum og gerði strax tvöfalda skiptingu eftir mark KF og aðra skiptingu skömmu síðar. Á svipuðum tíma gerði Milos þjálfari KF þrjár skiptingar með skömmu millibili, enda menn orðnir þreyttir á að vera manni færri. Symon, Atli Snær, og Daniel Kristianeson komu allir inná, en útaf fór Hákon Leó, Þorsteinn Már og Sævar Þór Fylkisson.
Varamennirnir stimpluðu sig strax inn og Daniel braut og fékk gult spjald og Víkingur vítaspyrnu. Úr henni skoraði Bjartur Barkarson og jafnaði leikinn á 80. mínútu, staðan 2-2 og enn nægur tími fyrir sigurmark.
Þjálfari KF gerði skiptingu á 85. mínútu og tók minnsta leikmann vallarins útaf, markaskorarann Julio Cesar, en inná kom Marinó Snær Birgisson. Ekki liðu margar mínútur þar til KF var búið að skora sitt þriðja mark en varamaðurinn Atli Snær Stefánsson gerði vel og var staðan orðin 3-2 í þessum baráttuleik og aðeins nokkrar mínútur eftir auk uppbótartíma.
Það var með ólíkindum að enginn annar leikmaður var rekinn útaf í síðari hálfleik, en dómarinn gaf 9 gulspjöld í síðari hálfleik og fékk KF sex þeirra.
KF hélt út og vann frábæran baráttusigur á heimavelli og er nú komið með 10 stig og elta nú ÍR-inga. KF strákarnir fögnuðu vel í búningsklefanum eftir leikinn eins og vaninn er eftir sigurleiki liðsins.
Næsti leikur er gegn toppliðinu Njarðvík þar sem Oumar Diouck fyrrum leikmaður KF hefur raðað inn mörkunum og skorað 10 mörk í 8 fyrstu leikjunum í deildinni. Hver ætlar að dekka Oumar í næsta leik?