KF mætti Víði á Ólafsfjarðarvelli

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Víði frá Garði á Ólafsfjarðarvelli í dag í 2. deild karla. Liðin höfðu bæði tapað fyrsta leiknum á Íslandsmótinu og voru ákveðin í að sækja öll stigin í dag.

Víðir er með fimm erlenda leikmenn í bland við unga leikmenn og KF var með þrjá erlenda leikmenn í byrjunarliðinu í dag og einn á bekknum.  Einhver meiðsli eru hjá KF þessa dagana en Hákon Leó Hilmarsson er meiddur næstu vikurnar.

Gestirnir hófu leikinn ágætlega og skoruðu mark strax á 10. mínútu. KF tókst ekki að skora í fyrri hálfleik og var staðan því 0-1. Engar breytingar voru gerðar á liðunum í hálfleik en Slobodan Milisic gerði sína fyrstu skiptingu á 63. mínútu þegar Oumar Diouck kom inn á í sóknina og lék sinn fyrsta leik fyrir KF. Hann er fæddur í Senegal en með belgískan ríkisborgararétt og á langan knattspyrnuferil í Belgíu, en lék síðast með FC Edmonton í Kanada.

KF gerði aðra skiptingu skömmu seinna til að setja enn meira bit í sóknarleikinn þegar Halldór Mar kom inná fyrir Óliver Jóhannsson. Þriðja skiptingin kom skömmu síðar en á 76. mínútu kom Jakob Auðun inná fyrir Kristófer Andra.

KF átt skot í stöng og vildu fá tvær vítaspyrnur sem ekki voru dæmdar. Undir lokin kom svo Sævar Þór inná fyrir Ljubomir Delic. KF lagði allt í sóknina í síðari hálfleik til að reyna jafna leikinn en inn vildi boltinn ekki og niðurstaðan 0-1 tap í dag.

KF er sem stendur í neðsta sæti deildarinnar eftir tap í fyrstu tveimur leikjunum. KF leikur næst við Kára á Ólafsfjarðarvelli, fimmtudaginn 2. júlí.

Nýjir leikmenn eru enn að tengjast liðinu og það er smá áhyggju efni að liðinu hefur ekki tekist að skora mark í fyrstu tveimur leikjum Íslandsmótsins.