KF mætti Þrótti í Vogum í toppslag – Umfjöllun í boði Siglufjarðar apóteks og ChitoCare Beauty

Umfjöllun um leiki KF eru í boði Siglufjarðar apóteks og ChitoCare Beauty sem eru aðalstyrktaraðilar, smellið á tenglana til að sjá vöruframboðið og þjónustu þeirra á netinu.

KF heimsótti Þrótt í Vogum á Vatnsleysuströnd á Reykjanesi í 16. umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu. Liðin mættust í byrjun júní á Ólafsfjarðarvelli og fór sá leikur 0-0. Þróttur hefur verið sterkasta liðið í deildinni fram til þessa og voru í efsta sæti fyrir þennan leik. KF var í 4. sæti og með sigri gátu þeir komist í 2.-3. sæti deildarinnar og blandað sér enn betur í toppbaráttuna.

Það vantaði þrjá sterka menn í lið Þróttar í þessum leik en þeir hafa góða breidd og leikur þeirra bara þess ekki merki að það vantaði lykilmenn.

KF gat stillt upp sínu sterkasta liði og þurftu að eiga toppleik til að sigra sterkt lið Þróttar. KF hefur ekki gengið sem best á útivelli í sumar, en liðið hafði aðeins unnið 2 leiki af 7 fyrir þennan leik. Þá hafði Þróttur aðeins tapað einum heimaleik í sumar.

Heimamenn voru meira með boltann í fyrri hálfleik og sköpuðu bæði lið sér góð tækifæri. Þróttur gerði fyrsta mark leiksins á 25. mínútu þegar Unnar Hansson skoraði, staðan 1-0.

Bæði lið fengu góð tækifæri til að skora mörk í fyrri hálfleik en skotin enduðu í slá og stöng og glæsilegar markvörslur markmannanna komu í veg fyrir fleiri mörk. Staðan var því 1-0 í hálfleik fyrir Þrótt.

Þjálfari KF var ekki ánægður með gang mála og gerði strax tvær breytingar í hálfleik þegar Hákon kom í vörnina og Sævar Gylfa fór útaf. Þá kom Vitor inná miðjuna og Birkir Már kom útaf. Þróttarar voru áfram öryggir á boltann og tóku sér tíma í öll föst leikatriði. KF fékk þó sóknir inná milli sem sköpuðu hættu við mark Þróttara.

Þróttarar komust í 2-0 þegar Alexander Helgason skoraði á 66. mínútu og voru þeir komnir í góða stöðu.  Heimamenn tóku sér enn meiri tíma í allar aðgerðir eftir markið og voru lítið að flýta sér.

Þjálfari KF gerði aðra skiptingu fljótlega eftir markið og var Atli Snær Stefánsson sendur inná fyrir Þorstein Má Þorvaldsson. Heimamenn gerðu einnig skiptingar á sama tíma og sendu tvo ferska leikmenn inná.

Ljubomir Delic hjá KF fékk skiptingu á 79. mínútu, en hann var á gulu spjaldi og kom Alexander Örn Pétursson inná.

KF náði að klóra í bakkann og skoraði Cameron Botes mark á 90. mínútu og var staðan því orðin 2-1 þegar nokkrar mínútur af uppbótartíma voru eftir og kom spenna í leikinn síðustu mínúturnar. Halldór markmaður fór fram þegar það var hornspyrna á síðustu mínútum leiksins, en inn vildi boltinn ekki.

Tíminn fjaraði út og Þróttur vann dýrmætan sigur í þessum toppslag.

KF er í 5. sæti deildarinnar eftir þennan ósigur og er liðið 5 stigum frá 2. sæti deildarinnar. Liðið mætir Magna á miðvikudaginn á Ólafsfjarðarvelli og má búast við erfiðum leik.