Umfjöllun um leiki KF eru í boði Siglufjarðar apóteks og ChitoCare Beauty sem eru aðalstyrktaraðilar, smellið á tenglana til að sjá vöruframboðið og þjónustu þeirra á netinu.
Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Þrótti frá Vogum í dag á Ólafsfjarðarvelli í 5. umferð Íslandsmótsins í 2. deildar karla. Mikil stemning var í allan dag í Ólafsfirði vegna sjómannadagshelgar og var leikurinn hluti af þeirri dagskrá og því mikil stemning í stúkunni hjá stuðningsmönnum. Fyrirfram var búist við jöfnum leik en liðin er svipuð af styrkleika en með sigri gátu bæði lið komist í efsta sæti deildarinnar þar sem önnur úrslit voru hagstæð. Liðin mættust á Íslandsmótinu í fyrra og var jafntefli í heimaleik KF en Þróttarar unnu stórsigur á sínum heimavelli.
KF spilaði með sitt sterkasta lið og sína fljótu framherja og freistuðu þess að beita skyndisóknum og sækja hratt þegar tækifæri voru til, ásamt því að vera með sín föstu leikatriði og þétta varnarleik. Hvorugu liðinu tókst að skora í fyrri hálfleik en Þróttarar náðu sér þó í tvö gul spjöld.
Gestirnir gerðu tvöfalda skiptingu strax í hálfleik og vildu fá meira útúr sínum leik, en lið KF var óbreytt áfram. Leikurinn var heilt yfir jafn og bæði lið fengu tækifæri en mörkin komu ekki. Þróttarar gerðu sína þriðju skiptingu þegar um 20 mínútur voru eftir af leiktímanum. Þjálfari KF gerði sína fyrstu skiptingu á 74. mínútu þegar Aron Elí Kristjánsson kom inná fyrir Bjarka Baldursson og Andi Morina kom inná fyrir Ljubomir Delic á 80. mínútu. Á 84. mínútu fór Hákon Leó útaf fyrir Birki Má.
Leiktíminn rann út og endaði leikurinn með markalausu jafntefli á Ólafsfjarðarvelli. KF færðist upp í 2. sæti deildarinnar með 10 stig og Þróttur fylgir fast á eftir í 3. sæti með 9 stig.
Niðurstaðan nokkuð sanngjörn og KF í ágætis málum þrátt fyrir þetta jafntefli. KF leikur næst við Magna á Grenivík 10. júní.