KF mætti Þór á Kjarnafæðismótinu
Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Þór á Kjarnafæðismótinu í dag og var leikið í Boganum á Akureyri. Þór spilar í Lengjudeildinni en voru með nokkuð unga leikmenn í hópnum í dag. Tveir fyrrum leikmenn KF voru í leikhópi Þórs í þessum leik en Nikola Kristinn var lánsmaður sl. sumar hjá KF og Jordan Damachoua var leikmaður KF 2018-2019 og stóð sig gríðarlega vel fyrir félagið.
Hákon Hilmarsson var fyrirliði KF í leiknum og Helgi Már var í markinu. Á bekknum voru ný andlit sem eru til skoðunar fyrir sumarið, en þar var Jónas Ólafsson frá Tindastól, fæddur 1999 og Gabriel Lukas Freitas Meira ungur leikmaður KA, fæddur árið 2006. Þá var varamarkmaður frá KA, Jóhann Mikael Ingólfsson, fæddur 2007, klár í að koma inná.
Þór gerði fyrsta mark leiksins á 15. mínútu þegar Nikola Kristinn skoraði gegn sínum fyrrum félögum og kom Þór í 0-1. Þór leiddi í hálfleik og gerði þrjár skiptingar og kom Jordan til að styrkja miðju og vörn.
Staðan var 0-1 allt þar til á 70. mínútu þegar Þór fær dæmt víti eftir að Helgi Már markmaður braut af sér innan teigs og fékk beint rautt spjald. Inná kom hinn ungi varamarkmaður Jóhann Mikael Ingólfsson, en hann er á fimmtánda ári og fékk eldskírn í þessum leik. Þór skoraði úr vítinu og komust í 0-2 og þannig var staðan þar til skammt var eftir af leiknum.
Þór komst í 0-3 á 89. mínútu og skoraði svo tvö mörk í uppbótar tíma og unnu leikinn 0-5 og eru taplausir á Kjarnafæðismótinu eftir þrjá leiki.
KF leikur næst við KA-2 á miðvikudaginn.