KF mætti Reyni á Ólafsfjarðarvelli – Umfjöllun í boði Siglufjarðar apóteks og ChitoCare Beauty

Umfjöllun um leiki KF eru í boði Siglufjarðar apóteks og ChitoCare Beauty sem eru aðalstyrktaraðilar, smellið á tenglana til að sjá vöruframboðið og þjónustu þeirra á netinu.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Reyni frá Sandgerði í 12. umferð Íslandsmótsins. Liðin mættust síðast í 2. umferðinni og vann KF þá 0-2, og árið 2019 vann KF báða leikina stórt.

Reynir var með 15 stig í 8. sæti og hafði ekki unnið leik í síðustu 5 umferðum. KF var með 17 stig í 5. sæti og hafði unnið tvo af síðustu 5 deildarleikjum.

Þegar leikurinn hófst var bjart í veðri og hiti 13 gráður, en eftir 90. mínútna leik var hitinn kominn yfir 19 gráður í Ólafsfirði og frábært veður.

Þjálfari KF gerði nokkrar breytingar á byrjunarliðinu frá síðasta leik, en Halldór Ingvar markmaður er orðinn heill af meiðslum og var kominn í byrjunarliðið og Javon Sample fór því á bekkinn.

KF byrjaði leikinn af krafti og náðu inn marki strax á 9. mínútu þegar Áki Sölvason skoraði. Áki er lánsmaður frá KA og hefur farið vel af stað hjá KF. Hákon Leó lét líka finna fyrir sér og náði sér í gult spjald á 12. mínútu.  Þorsteinn Þór Tryggvason aðstoðarþjálfari KF fékk svo rautt spjald á 38. mínútu eftir athugasemdir við dómara leiksins, og var honum gefið að yfirgefa völlinn. Staðan var 1-0 fyrir heimamenn í hálfleik.

Strákarnir úr Sandgerði gerðu hvað þeir gátu til að jafna leikinn og fengu nokkur dauðafæri en KF stóð vaktin vel. Grétar Áki fékk skiptingu í hálfleik hjá KF, líklega um meiðsli að ræða. Þá kom Þorsteinn Már inná fyrir Nikola Kristinn á 52. mínútu hjá KF. Það létti því mikið á pressunni þegar Oumar Diouck skoraði á 84. mínútu og kom KF í 2-0 og þægilega stöðu þegar skammt var eftir. KF gerði tvær skiptingar í lok leiksins þegar Marinó Snær og Sævar Þór Fylkisson komu inná fyrir Oumar og Vitor.

Áki Sölvason skoraði svo í uppbótartíma fyrir KF og innsiglaði frábæran sigur á Reyni, lokatölur 3-0.  KF er eftir þennan sigur í 4. sæti með 20 stig og stutt á eftir toppliðunum.