KF mætti Magna í fimm marka leik – Umfjöllun í boði Siglufjarðar apóteks

Umfjöllun um leiki KF í vor og sumar verða í boði Siglufjarðar apóteks sem eru aðalstyrktaraðli. Stuðningurinn gerir það  mögulegt að hafa veglegar lýsingar með öllum Lengjubikar og deildar- og bikarleikjum KF í ár.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Magni frá Grenivík mættust í Lengjubikarnum í dag á Dalvíkurvelli. Þetta eru lið sem þekkja vel styrkleika hvors annars og mætast reglulega. Á síðasta ári mættust liðin fjórum sinnum í deildinni, deildarbikar og bikarkeppninni. KF vann þrjá þessara leikja og einn endaði jafntefli, en KF virðist hafa eitthvað tak á Magna liðinu.

Það voru strákarnir frá Grenivík sem byrjuðu leikinn betur og skoruðu strax á 4. mínútu þegar Angantýr Gautason skoraði, staðan 0-1 fyrir Magna.

KF var ekki lengi að jafna og skoraði Ljubomir Delic mark á 17. mínútu. Magni náði sér í tvö gul spjöld áður en dómarinn flautaði til hlés og var staðan 1-1 þegar liðin fóru til búningsklefanna.

KF hefur nýtt þessa leiki vel í Lengjubikarnum og notað skiptingar sínar vel. Þjálfari KF gerði því tvær skiptingar strax í leikhlé og fór meðal annars Javon Sample markmaður útaf fyrir Helga Má varamarkmann liðsins. Þá kom Sindri Sigurðarson inná fyrir Aron Elí hjá KF.

KF komst yfir á 54. mínútu þegar Sævar Þór Fylkisson skoraði og kom þeim í 2-1. Magni jafnaði hinsvegar fljótt aftur en Tómas Þórðarson skoraði á 60. mínútu en hann hafði komið inná sem varamaður á 48. mínútu. Staðan orðin 2-2 og rúmur hálftími eftir af leiknum.

KF komst aftur í forystu á 67. mínútu þegar Þorsteinn Már Þorvaldsson skoraði. Magni gerði tvær skiptingar í kjölfarið til að freista þess að jafna leikinn.

Í uppbótartíma fékk markmaður Magna rautt spjald fyrir brot utan teigs þegar hann var of seinn í boltann og tók leikmann KF niður. KF náði ekki að nýta sér færið og lauk leiknum með 3-2 sigri KF.

KF leikur næst við Fjarðabyggð/Leikni fyrir austan, laugardaginn 26. mars.