Umfjöllun um leiki KF eru í boði Siglufjarðar apóteks og ChitoCare Beauty sem eru aðalstyrktaraðilar, smellið á tenglana til að sjá vöruframboðið og þjónustu þeirra á netinu.
Knattspyrnufélag Fjallabyggðar heimsótti Knattspyrnufélag Vesturbæjar (KV) á KR-vellinum í 18. umferð Íslandsmótsins. Um var að ræða alvöru toppslag um 2. sæti deildarinnar, en 5 lið berjast um það sæti eins og staðan er núna og pakkinn mjög þéttur. KV var í 2. sæti deildarinnar fyrir þennan leik en KF í 4. sæti og aðeins munaði þremur stigum á liðunum.
KF og KV mættust á Ólafsfjarðarvelli um miðjan júní og unnu gestirnir nokkuð örugglega 0-2 í þeim leik. KF vildi svara fyrir það í þessum leik og reyna nálgast efstu sætin í deildinni enn frekar.
Þjálfari KF þurfti að gera nokkrar breytingar á byrjunarliðinu vegna meiðsla á leikbanns. Fyrirliðinn Grétar Áki meiddist í síðasta leik og verður frá í einhvern tíma og tók ekki þátt í þessum leik. Þá var Vitor líka meiddur og var í liðsstjórn í dag. Nikola Kristinn tók út leikbann og tók ekki þátt en verður klár í næstu umferð. Marinó Snær Birgisson og Atli Snær Stefánsson voru því í byrjunarliðinu í þessum leik og fengu gott tækifæri til að sýna sig.
Fyrri hálfleikur var fjörugur og mikið skorað. Gestirnir úr Fjallabyggð náðu forystu í leiknum á 33. mínútu þegar Þorvaldur Már Þorsteinsson skoraði. Heimamenn voru hinsvegar fljótir að svara og jöfnuðu leikinn á 37. mínútu, með marki úr vítaspyrnu sem Ingólfur Sigurðsson tók, staðan orðin 1-1. KF komst aftur í fyrstu á 45. mínútu þegar Cameron Botes skoraði gott mark. Heimamenn nýttu hinsvegar uppbótartímann vel og jöfnuðu leikinn 2-2 áður en dómarinn flautaði til hálfleiks.
Minna var um markaskorun í síðari hálfleik. Heimamenn komust yfir í fyrsta sinn í leiknum á 67. mínútu, staðan orðin 3-2 og rúmar tuttugu mínútur eftir. Þjálfari KF gerði strax tvær skiptingar eftir markið og Andi Morina og Hákon Leó voru settir inná fyrir Þorstein Má og Birki Má. Þá komu Aron Elí og Alexander Örn inná þegar tæpar 10 mínútur voru eftir með uppbótartíma, Bjarki Baldurs og Atli Snær fóru útaf.
KF gerðu hvað þeir gátu að jafna leikinn en það tókst ekki í þetta skiptið. Fleiri mörk voru ekki skoruð og vann KV leikinn 3-2. Svekkjandi úrslit fyrir KF.
Úrslit dagsins þýða að KV er áfram í 2. sæti deildarinnar og Völsungur fylgir þar fast á eftir. KF er áfram í 4. sæti og þarf mikið að gerast svo liðið komist í 2. sætið og upp um deild eins og staðan er núna.
KF leikur við Njarðvík í næsta leik á Ólafsfjarðarvelli, laugardaginn 28. ágúst.