Arion banki í Fjallabyggð er styrktaraðili fréttaumfjallana um Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Knattspyrnufélagið Hlíðarendi (KH) mættust á Valsvelli í Reykjavík í gær í 3. deild karla. KH hefur undanfarin ár verið í 4. deildinni en vann sig upp á síðasta tímabili og hefur liðið farið vel af stað á mótinu í ár. Þekktasti leikmaður KH er Ingólfur Sigurðsson, en hann hefur m.a. leikið í efstu deild með KR, Val og í Inkassodeildinni með Þrótti, Víkingi Ó. Fram og KV.  KH var í efri hluta deildarinnar fyrir þennan leik eftir góða byrjun á mótinu, voru með 4 leiki unna og 2 tapaða með 12 stig. KF var hins vegar í neðri hlutanum með tvo sigra og fjögur töp.

KH byrjaði leikinn betur og komust yfir á 18. mínútu með marki frá Ingólfi Sigurðssyni, hans 5. mark í 6 leikum í deildinni í sumar. KF náði ekki að svara í fyrri hálfleik með marki, og var staðan 1-0 fyrir heimamenn í hálfleik. KH byrjuðu svo af krafti í síðari hálfleik og komu strax inn marki á 48. mínútu og var þar að verki Andri Morina. Aðeins tólf mínútum síðar komast heimamenn í 3-0 með öðru marki frá Andra Morina, hans 4 mark í 7 leikjum í deildinni í sumar. KF gerði svo fljótlega eftir þetta þrjár skiptingar og á 70. mínútu náði KF að minnka muninn í 3-1 með marki frá varnarmanninum Jordan Damachoua, hans fyrsta mark fyrir félagið í 5 leikjum. KF náði ekki að bæta við fleiri mörkum og urðu lokatölur 3-1 gegn þessu sterka liði KH. KF er eftir 7 umferðir í neðsta sæti með 2 sigra og 5 töp. Liðið hefur aðeins skorað 5 mörk í 7 leikjum og fengið á sig 11 mörk. Næsti leikur liðsins er heimaleikur gegn KV þann 30. júní.