Siglufjarðar Apótek er aðalstyrktaraðili umfjallana um meistaraflokk KF í sumar eins og undanfarin ár. Á heimasíðu Siglufjarðar Apóteks getur þú pantað lyf og keypt vítamín og bætiefni, hjúkrunarvörur og snyrtivörur.

Upphitun: 

Eftir fjóra tapleiki í deildinni og aðeins tvö mörk skoruð, var liðið loksins aftur fullskipað hjá KF. Dóri þjálfari var farinn úr markinu og aftur á bekkinn að stjórna liðinu. Á bekknum voru sterkir menn eins og Vitor Thomas, Sævar Þór Fylkisson og Jordan Damachoua, en mikil barátta er um sæti í liðinu um þessar mundir og er þjálfarinn að reyna finna réttu blönduna auk þess sem menn hafa verið að koma úr meiðslum.

KFA – Knattspyrnufélag Austfjarða er sameinað lið og voru hársbreidd frá því að fara upp í Lengjudeildina á síðasta tímabili, en voru með lakara markahlutfall en ÍR sem fór upp á síðustu metrunum. Lið KFA er skipað reynslumiklum leikmönnum sem spilað hafa hér í efstu deild, eins og Þórður Ingason markmaður og Eggert Gunnþór Jónsson varnarmaður. En í liðinu er líka fyrrum leikmaður KF, Julio Cesar Fernandes, sem lék eitt tímabil með KF árið 2022 og skoraði 16 mörk í 20 leikjum. Hann var fremsti maður hjá KFA í dag og léku þeir með fjóra varnarmenn, þrjá miðjumenn og þrjá sóknarmenn, en þegar þeir vörðust voru þeir með fimm miðjumenn.

Umfjöllun:

KF menn voru staðráðnir í að sækja stig í þessum leik, sem kemur núna um Sjómannadagshelgina í Ólafsfirði. Þetta var einnig fyrsti leikurinn á Ólafsfjarðarvelli, en síðasti heimaleikur fór fram á gervigrasinu á Dalvík. KFA komu líka fullir sjálfstraust eftir að hafa skorað 7 mörk í síðasta leik gegn Reyni Sandgerði. Það var því fyrirfram búist við erfiðum leik gegn Austfirðingunum.

En það voru KF strákarnir sem voru sterkari og nýttu færin. KF skoraði tvö góð mörk í fyrri hálfleik og höfðu gestirnir engin svör Það var nýi leikmaðurinn Jonas Benedikt sem gerði bæði mörkin. Völlurinn oft verið betri en það eru stigin sem telja, og var staðan 2-0 í hálfleik. Þjálfari KFA var óhress með sína menn og gerði þrefalda skiptingu í hálfleik.

KF skoraði aftur snemma í síðari hálfleik og komust í 3-0, þegar Þorsteinn Már Þorvaldsson skoraði. Gestirnir gerðu hvað þeir gátu og gerðu fjölmargar skiptingar til að reyna komast inn í leikinn. Undir lok leiksins kom svo fjórða markið og aftur var það KF og staðan orðin 4-0, var það núna varamaðurinn Anton Karl Sindrason sem var nýlega kominn inná völlinn. KF fór algjörlega á kostum í þessum leik og sigldu sigrinum og stigunum í hús með frábærri baráttu. Lokatölur 4-0 og KF loksins komið með fyrsta sigurinn.

Frábær byrjun á sjómannadagshelginni í Ólafsfirði.

 

Siglufjarðar apótek er aðalstyrktaraðili umfjallana um alla leiki KF í deild og bikar í sumar.

Takk Siglufjarðar Apótek

Byrjunarlið

Varamannabekkur