KF mætti KA á Kjarnafæðismótinu

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti KA-2 á Kjarnafæðismótinu í dag. Bæði lið voru með einn sigur í riðlinum fyrir þennan leik en Þór hafði þegar unnið riðilinn. KF og KA-2 börðust því um annað sætið í þessum leik. Strákarnir í KA eru í 2. flokki liðsins, fæddir á 2003-2006 og eru allir mjög efnilegir og greinilega mikill efniviður hjá KA liðinu.

KF stillti upp sterku liði, en liðið er þó ekki orðið fullmannað fyrir sumarið og spurning hvaða leikmenn bætast við hópinn í vor.

Grétar Áki var kominn í hópinn og einnig markvörðurinn Javon Sample. Hákon Leó Hilmarsson var fyrirliði KF í leiknum.

Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik, en Grétar Áki fékk skiptingu á 30. mínútu eftir að hafa meiðst á ökklanum, en Ljubomir Delic kom inná í hans stað.

KA strákarnir komust yfir á 53. mínútu með marki frá Tómasi Þórðarsyni og var staðan orðin 0-1. Jöfnunarmark KF kom á 72. mínútu, en markið gerði Þorsteinn Már Þorvaldsson.

Lokatölur leiksins urðu 1-1 og endaði KF í 2. sæti riðilsins.