KF mætti ÍR í Breiðholtinu

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti ÍR á Hertz-vellinum í dag í fyrstu umferð 2. deildar karla í knattspyrnu. Liðin mættust síðast fyrir 4 árum og vann þá ÍR báða leikina sannfærandi. ÍR hefur alltaf verið erfitt heima að sækja og var búist við erfiðum leik.

Emanuel Nikpalj lék sinn fyrsta leik fyrir KF í dag og leiddi sóknina og kom beint inn í byrjunarliðið. Á bekknum var Ljubomir Delic sem kom nýlega til landsins og var að leika sinn fyrsta leik í sumar, en hann hefur verið með KF síðustu þrjú tímabil.

Fyrsta mark leiksins kom á 31. mínútu þegar Viktor Örn Guðmundsson fékk sendingu frá liðsfélaga og skoraði með góðu skoti fyrir utan teiginn og kom heimamönnum í 1-0.  Boltinn tapaðist á miðjunni eftir að leikmaður ÍR tæklaði leikmann KF og uppúr varð skyndisókn sem skilaði þessu marki. Staðan í hálfleik var 1-0.

Halldór Mar var sendur inn á hjá KF á 57. mínútu, en hann hefur farið vel af stað í fyrstu bikarleikjum liðsins í sumar. Útaf fór Bjarki Baldursson.  KF gerðu aftur skiptingu á 63. mínútu þegar Kristófer Andri var sendur inná fyrir Jón Óskar. Aftur gerði þjálfari KF skiptingu á 69. mínútu og nú voru tveir sóknarmenn sendir inná en það voru Ljubomir og Sævar Gylfason. KF freistaði þess að jafna leikinn en inn vildi boltinn ekki. Jakob Auðun kom svo inná á 84. mínútu fyrir Sævar Þór.

ÍR hélt út og hirti öll þrjú stigin í þessum leik, en KF hefði með smá heppni átt að ná jafntefli í þessum leik.