KF mætti ÍR á Ólafsfjarðarvelli

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti ÍR á Ólafsfjarðarvelli í 11. umferð Íslandsmótsins í dag. Leikurinn var opinn og fjörugur, mikið af færum og mikið af brotum. Leikurinn var sýndur í beinni á fésbókarsíðu KF með líflegri lýsingu hjá Erni Elí Gunnlaugssyni. Útsendingin var stundum alveg á hliðinni á tölvuskjám landsmanna þar sem síminn í upptökunni snéri ekki rétt, og eflaust margir með hálsríg eftir áhorfið. Engu að síður frábær tilþrif hjá Erni.

KF heimsótti ÍR í fyrstu umferð Íslandsmótsins og tapaði 1-0, en ÍR hafði einmitt unnið síðustu þrjá leiki gegn KF fyrir þennan leik. ÍR hefur ekki byrjað mótið vel og hafði aðeins unnið 3 leiki af fyrstu 10. KF tapaði í síðustu umferð gegn Víði, en hafa byrjað mótið ágætlega og leikið vel á köflum. KF var með sitt sterkasta lið og var Hákon Leó kominn í byrjunarliðið eftir að hafa náð sér að fullu af meiðslum.

KF byrjaði leikinn betur og fengu ágætis færi í fyrri hálfleik. Það var hins vegar Oumar Diouck sem braut ísinn á 32. mínútu með góðu marki eftir nákvæma sendingu frá kantinum. Aðeins fimm mínútum síðar var hann aftur á ferðinni og fékk nú góða stungusendingu og slapp inn fyrir vörn ÍR og kláraði færið vel og kom KF í góða stöðu, 2-0. Gestirnir náðu ekki að minnka muninn fyrir hlé og staðan því 2-0 í hálfleik.

Harka færðist í leikinn í síðari hálfleik og lyfti dómari leiksins gulaspjaldinu 7 sinnum, KF fékk fjögur og ÍR þrjú gul spjöld. ÍR komst betur inn í leikinn í síðari hálfleik og gekk þeim betur að halda boltanum og finna tækifæri á móti KF. Bergvin Fannar Helgason leikmaður ÍR minnkaði muninn á 64. mínútu, en hann er aðeins 17 ára og var að leika sinn fjórða leik fyrir meistaraflokk. Staðan skyndilega orðin 2-1 og gestirnir fengu smá von og sjálfstraust.

Ljubomir Delic svaraði strax í næstu sókn fyrir KF og kom þeim í góða stöðu 3-1, og hans fjórða mark í sumar. ÍR-ingar gáfust ekki upp og minnkuðu aftur muninn á 71. mínútu og var nú komin spenna í leikinn í stöðunni 3-2.

KF setti spræka menn inná á síðustu 15. mínútum leiksins og fékk liðið nokkrar skyndisóknir sem ekki nýttust. Bæði lið fengu ágætis færi á lokamínútum leiksins en KF hélt út og landaði frábærum sigri á ÍR og fékk þrjú dýrmæt stig í baráttunni.

KF er núna komið með 18 stig og eru í 7. sæti eftir 11. umferðir.