KF mætti ÍR á Ólafsfjarðarvelli – Umfjöllun í boði ChitoCare Beauty og Siglufjarðar apóteks

Umfjöllun um leiki KF eru í boði ChitoCare Beauty og  Siglufjarðar apóteks sem eru aðalstyrktaraðilar, smellið á tenglana til að sjá vöruframboðið og þjónustu þeirra á netinu.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Íþróttafélagi Reykjavíkur, ÍR, á Ólafsfjarðarvelli í 20. umferð Íslandsmótsins, og næst síðustu umferð mótsins. Halldór Ingvar markmaður KF tilkynnti nokkrum dögum fyrir leik að hann ætlaði sér að leggja hanskana á hilluna og hætta með KF eftir mótið. Stuðningsmenn ætluðu því að klappa fyrir Dóra á 2. mínútu leiksins, honum til heiðurs,en hann leikur ávallt í treyju númer 2.

Þjálfari KF gerði þrjár breytingar frá síðasta leik en Sævar Gylfason, Halldór Ingvar og Grétar Áki komu inn í byrjunarliðið. Varamannabekkurinn var sterkur eins og í síðasta leik, en Oumar Diouck, Sachem, Vitor,Nikola, Alexander Örn, Bjarki og Javon voru á bekknum og tilbúnir að koma inná. Bakvörðurinn sterki Hákon Leó var fjarverandi vegna veikinda.

KF slátraði Fjarðabyggð 0-4 á Austurlandi í síðustu umferð en ÍR tapaði illa fyrir Haukum, 0-4. ÍR vann þó KF í fyrri umferðinni í sumar í stórsigri 6-0, en  ÍR hefur unnið 6 af 9 leikjum liðinna á Íslandsmótinu sl. 7 ár en KF hefur unnið þrjá leiki, enginn hefur farið jafntefli. KF gat með sigri í dag komist í 4. sæti deildarinnar ef önnur úrslit yrðu hagstæð. Liðið var ákveðið í að sækja sigur fyrir Dóra og kvitta fyrir slæm úrslit í fyrri leik liðanna í sumar.

Bræðururnir Andi Andri Morina hjá KF og Arian Ari Morina hjá ÍR voru báðir í byrjunarliði og áttu eftir að berjast um boltann í leiknum. Leikurinn sjálfur byrjaði og Dóri bar fyrirliðabandið og stóð í markinu. Eins og auglýst hafði verið þá klöppuðu stuðningsmenn fyrir Dóra á 2. mínútu en þá fékk hann heiðursskiptingu og Javon Sample kom inná í hans stað. Nokkuð óvænt útspil hjá þjálfara leiksins en skemmtileg stund fyrir Dóra sem staðið hefur vaktina lengi fyrir KF og staðið sig mjög vel innan og utan vallar.

Það voru gestirnir í ÍR sem tóku forystuna undir lok fyrri hálfleiks þegar Pétur Friðriksson kom þeim í 0-1 í uppbótartíma.  KF tók miðju og fór í sókn og skoraði, Andi Morina var þar að verki, virkilega vel gert. Staðan var því 1-1 í hálfleik. Atli Snær og Birkir Már voru á gulu spjaldi eftir fyrri hálfleikinn og urðu að fara gætilega í tæklingar í síðari hálfleik.

ÍR gerði tvöfalda skiptingu strax í hálfleik, til að fá ferska fætur á völlinn. KF hélt áfram að hafa yfirhöndina í leiknum í síðari hálfleik. ÍR gerði aðra tvöfalda skiptingu á 60. mínútu. Þjálfari KF gerði tvöfalda skiptingu á 67.mínútu, og setti hann Oumar Diouck og Nikola Kristinn inná. Theodore Wilson (Sachem) kom inná á 84. mínútu. Hann nýtti færið sitt vel og skoraði sigurmark leiksins á 87.mínútu og kom KF í 2-1. Frábær innkoma hjá Sachem.

Fleiri mörk voru ekki skoruð og vann KF dýrmætan sigur í deildinni og komst í 4. sæti.

Einn leikur er eftir af mótinu og KF getur komist í 3. sæti vinni liðið Hauka og önnur úrslit verða hagstæð.