KF mætti ÍR á Dalvíkurvelli – Umfjöllun í boði Siglufjarðar Apóteks

Umfjöllun um leiki Knattspyrnufélags Fjallabyggðar í vor og sumar verða í boði Siglufjarðar apóteks sem eru aðalstyrktaraðili.

KF mætti ÍR á Dalvíkurvelli í 2. umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu í 2. deild karla. Ólafsfjarðarvöllur er enn ekki tilbúinn, en gervigrasið á Dalvík er hins vegar tilbúið allan ársins hring. Búist var við baráttuleik en liðin enduðu á svipuðum stað í deildinni í fyrra, en ÍR vann þó stórsigur 6-0 á heimavelli í fyrra en KF vann 2-1 á sínum heimavelli.

Helgi Már hélt stöðunni sinni í markinu hjá KF en Javon Sample var kominn á bekkinn eftir að hafa verið fjarverandi í undanförnum leikjum. Þá var Cameron Botes kominn í byrjunarliðið en Auðunn Auðunsson byrjaði á bekknum hjá KF.

ÍR vann fyrsta leikinn sinn á mótinu 3-0 svo KF vildi leika þétta í þessum leik og gefa fá færi á sér.

Fátt var um fína drætti í fyrri hálfleik og lítið um færi en meira um baráttu á miðjunni. ÍR náði sér þó í tvö gul spjöld í fyrri hálfleik og einnig Julio Fernandes, brasilíumaðurinn hjá KF. Staðan var 0-0 þegar dómarinn flautaði til leikhlés.

Slobotan Milicis þjálfari KF gerði eina breytingu í hálfleik þegar Atli Snær kom inná fyrir Þorvald Daða Jónsson. ÍR gerði svo tvöfalda skiptingu á 68. mínútu og sendi tvo ferska menn inná.

Ljubomir Delic náði sér í gult spjald á 69. mínútu eftir brot á miðjum velli, en annars var enn mikið miðjumoð í gangi í leiknum á þessum tíma. Skömmu síðar komst ÍR í færi á vítateig KF og náði nokkrum skotum en vörnin hélt og kom boltanum í horn.

KF gerði aðra skiptingu á 78. mínútu þegar Jón Frímann kom inná fyrir Sævar Þór Fylkisson. ÍR gerði í framhaldinu þrefalda skiptingu og freistuðu þess að koma inn marki.

KF gerði svo eina skiptingu í uppbótartíma þegar Julio Fernandes fór út af og Marinó Snær kom inná síðustu mínúturnar.

KF fékk svo eitt dauðafæri í uppbótartíma og hefðu getað stolið sigrinum en leikmaður KF hitti boltann ekki á ögurstundu.

Dómarinn flautaði lokaflautið og ekkert mark var skorað í þessum leik. Niðurstaðan 0-0 og eitt stig í hús.

KF er með tvö stig eftir tvær fyrstu umferðir mótsins og er í 7. sæti. Næsti leikur KF verður útileikur gegn Haukum, en þeir hafa unnið fyrstu tvo leiki sína á mótinu og eru erfiðir heim að sækja.