KF mætti Haukum í Hafnarfirði – Umfjöllun í boði Siglufjarðar Apóteks

Umfjöllun um leiki Knattspyrnufélags Fjallabyggðar í vor og sumar verða í boði Siglufjarðar apóteks sem eru aðalstyrktaraðili.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar heimsótta Hauka í Hafnarfirðinum í dag í 3. umferð Íslandsmótsins í 2. deild karla. Haukar voru ósigraðir eftir tvær umferðir og höfðu ekki fengið á sig mark en aðeins skorað tvö. KF var enn ósigrað en hafði aðeins gert tvö jafntefli í fyrstu tveimur umferðum Íslandsmótsins. Liðin mættust þrisvar á síðasta ári þar sem liðin drógust einnig saman í bikarnum.  KF vann eftirminnilegan stórsigur á Haukum á Ólafsfjarðarvelli 5-0, en gerðu 2-2 á heimavelli Haukanna um haustið. Haukarnir unnu hinsvegar bikarleikinn 1-2 á Ólafsfjarðarvelli.

Javon Sample var kominn í markið hjá KF í þessum leik og stillti KF upp sínu sterkasta liði auk þess sem sterkir leikmenn eru á bekknum og góð samkeppni um flestar stöður á vellinum.

Það var KF sem komst yfir með marki á 24. mínútu þegar brasílíumaðurinn Julio Fernandes skoraði sitt annað mark í þremur leikjum fyrir liðið, en hann hefur byrjað vel fyrir KF og nýtt færin áætlega. Staðan var því 0-1 í hálfleik fyrir gestina.

Heimamenn í Haukum komu ákveðnari til leiks eftir leikhlé og skoruðu tvö mörk á skömmum tíma. Fannar Friðleifsson skoraði á 59. mínútu og jafnaði leikinn í 1-1. Kristján Ólafsson skoraði fjórum mínútum síðar og kom Haukum yfir í stöðuna 2-1.

Þjálfari KF gerði þá tvöfalda skiptingu á 74. mínútu og það skilaði sér skömmu seinna í jöfnunarmarki.  Sævar Fylkisson kom inná fyrir Þorvald Jónsson og Þorsteinn Már Þorvaldsson kom inná fyrir fyrirliðann Grétar Áka. Sævar Þór Fylkisson skoraði jöfnunarmarkið á 76. mínútu og var staðan 2-2 og rúmar 15 mínútur eftir.

Haukar gerðu einnig tvöfalda skiptingu skömmu eftir markið og freistuðu þess að koma inn sigurmarkinu.

Fleiri urðu mörkin ekki en heimamönnum tókst þó að krækja sér í þrjú gul spjöld á lokamínútum leiksins sem endaði með löngum uppbótartíma.

KF er í 7. sæti með 3 stig eftir fyrstu þrjár umferðir mótsins. Liðið mætir næst Þrótti á Ólafsfjarðarvelli eftir viku.