Umfjöllun um leiki Knattspyrnufélags Fjallabyggðar í vor og sumar verða í boði Siglufjarðar apóteks sem eru aðalstyrktaraðili. Siglufjarðar Apótek leggur mikla áherslu á að bjóða framúrskarandi og persónulega þjónustu og vörur á góðu verði. Siglufjarðar Apótek var stofnað árið 1928 og er elsta starfandi apótek landsins í einkaeigu.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Haukum úr Hafnarfirði í dag 14. umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu. Leikurinn fór fram á Ólafsfjarðarvelli og var veður ágætt, um 16 stiga hiti og hægur vindur. Eftir stórsigur KF í síðustu umferð þá voru stuðningsmenn með mikla væntingar um góð úrslit í þessum leik, en liðið hefur ekki verið að ná að tengja sama sigra og mótið spilast öðruvísi en væntingar stóðu til.  KF hafði aðeins tapað einum heimaleik í deildinni, gert tvö jafntefli og unnið þrjá leiki. KF hefur aftur á móti ekki enn unnið útileik, og það er eitthvað sem þarf að laga.

KF gerði 2-2 jafntefli í síðasta leik gegn Haukum á útivelli, en vann svo stórsigur á Ólafsfjarðarvelli á síðustu leiktíð, 5-0 og þau úrslit sitja fast í stuðningsmönnum.

KF byrjaði með sterkt lið, en það vakti athygli að varnarmaðurinn stóri og sterki Jordan Damachoua byrjaði leikinn á bekknum, en hann kom til liðsins fyrir síðasta leik að láni út leiktíðina. Daniel Kristiansen var aftur kominn í byrjunarliðið eftir bekkjarsetu í undanförnum leikjum.

Haukar eru einnig með hörku lið, góða blöndu af yngri og reynslumeiri leikmönnum og á liðið mikið inni á þessu Íslandsmóti.

Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik en dómarinn gaf þó þrjú gul spjöld og setti línuna strax. Þjálfari Hauka gerði þrefalda skiptingu á 57. mínútu og þá fjórðu á 60. mínútu. Hann vildi sjá meira frá sínum mönnum og setti þetta kraft í þeirra leik. Þjálfari KF svaraði þessu á 59. mínútu með því að setja varnarmanninn Jordan Damachoua inná fyrir Daniel Kristiansen, til að styrkja vörn og miðju. Skömmu síðar eða á 69.mínútu kom Symone Ericksen inná fyrir Hákon Leó í bakverðinum og Þorsteinn Már inná fyrir Hrannar Snæ á 71. mínútu . Strax í næstu sókn skoruðu Haukar eða á 72. mínútu og voru komnir í 0-1. Bæði lið gerðu eina aðra skiptingu en fleiri urðu mörkin ekki og unnu Haukarnir dýrmætan sigur á heimaliðinu.