KF mætti Fjarðabyggð á Eskifirði – Umfjöllun í boði Siglufjarðar apóteks og ChitoCare Beauty

Umfjöllun um leiki KF eru í boði Siglufjarðar apóteks og ChitoCare Beauty sem eru aðalstyrktaraðilar, smellið á tenglana til að sjá vöruframboðið og þjónustu þeirra á netinu.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar heimsótti Fjarðabyggð á Eskifirði í 20. umferð Íslandsmótsins í 2. deild karla.  KF var fyrir leikinn í 8. sæti eftir að hafa tapað þremur leikjum af síðustu fimm í deildinni. Fjarðabyggð var í fallsæti og þurfti að treysta á að sækja sigur í síðustu þremur leikjum deildarinnar og treysta á önnur úrslit. Fjarðabyggð hefur gengið illa á mótinu og hafði aðeins 11 stig fyrir þennan leik. Þéttur pakki er fyrir ofan KF liðið og góður möguleiki enn að enda í 3.-4. sæti deildarinnar ef allt gengur upp í lokaumferðum mótsins. KF vann sannfærandi sigur á fyrri leik liðanna í sumar sem endaði með 4-0 sigri KF á Ólafsfjarðarvelli. Árið 2020 var mikill markaleikur á Eskjuvelli þegar liðin mættust og endaði með 2-4 sigri KF.

Slobodan Milisic þjálfari KF gerði nokkrar breytingar á byrjunarliðinu, en nokkrir leikmenn eru að koma úr meiðslum. Halldór Yngvar Guðmundsson markmaður var óvænt á bekknum og var Javon Sample í byrjunarliðinu í hans stað, en hann leysti stöðuna ágætlega fyrri í sumar þegar hann lék 4 leiki í fjarveru Halldórs. Theodore Develan Wilson (Sachem) var óvænt á bekknum en hann er nánast án undantekninga í byrjunarliðinu. Þá var Grétar Áki á bekkun en hann er að koma úr meiðslum. Þá voru Hákon Leó og Alexander Örn einnig á bekknum, en óvenju sterkir leikmenn skipuðu bekkinn í þessum leik.  Oumar Diouck var ekki ekki á leikskýrslu í þessum leik, en hann er einn öflugasti maður deildarinnar, sóknarlega séð. Strákarnir í KF voru staðráðnir í að leggja allt í leikinn og sækja góð úrslit eftir ekki nægilega góð úrslit síðustu leika.

Cameron Botes var fyrirliði KF í fyrsta sinn í þessum leik í en Halldór og Grétar Áki hafa borið bandið undanfarin ár.  KF byrjaði leikinn af krafti og uppskáru vítaspyrnu á 3. mínútu leiksins, fyrirliðinn Cameron Botes fór á punktinn og skoraði og kom KF í 0-1 á upphafsmínútum leiksins. Aðeins sjö mínútum síðar var Atli Snær Stefánsson búinn að skora aftur fyrir KF, staðan 0-2 eftir aðeins tíu mínútur. Þriðja mark KF kom eftir tæpan hálftíma leik, en Andi Morina skoraði markið og kom KF í þægilega stöðu, 0-3. Staðan var 0-3 þegar dómarinn flautaði til hálfleiks.

Þjálfari KF gat verið sáttur með sína menn í hálfleik, en annað hljóð var í þjálfara KFF – Fjarðabyggð, hann gerði strax tvöfalda skiptingu í hálfleik. Slobodan þjálfari KF gerði tvöfalda skiptingu á 63. mínútu og setti tvö öfluga menn inná, en Theodore Develan Wilson (Sachem) kom inná fyrir Marinó Snæ og Hákon Leó kom inná fyrir Birki Má.

Lítið var að gerast hjá Fjarðabyggð í síðari hálfleik, en þjálfari þeirra hélt áfram að gera breytingar og fengu allir fimm varamenn liðsins að koma inná, þrjár aðrar skiptingar voru gerðar um miðjan síðari hálfleik hjá heimamönnum. Grétar Áki kom inná fyrir Þorstein Má á 75. mínútu hjá KF og Alexander Örn fyrir Andi Morina á 81. mínútu.

Alexander Örn þakkaði fyrir sig og skoraði loka mark leiksins á 85. mínútu og kom KF í 0-4.

Frábær sigur hjá KF og eiginlega skyldusigur gegn KFF sem gengur ekkert og eru að fara leika í 3. deild að ári.

KF lyfti sér upp í 5. sæti deildarinnar með þessu stórsigri. KF leikur næst við ÍR á Ólafsfjarðarvelli og er það síðasti heimaleikurinn í deildinni hjá KF. Liðið endar svo mótið með því að leika við Hauka á útivelli. Sigrar í þessum leikjum geta fært liðinu 4. sæti deildarinnar ef allt annað gengur upp.