Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Dalvík/Reynir mættust í Lengjubikarnum á Dalvíkurvelli í kvöld. KF gat sem sigri náð í sín fyrstu stig í riðlinum en Dalvík/Reynir gat komst í 2. sæti með sigri.

Halldór Ingvar Guðmundsson var skráður aðstoðarþjálfari KF í þessum leik en spilandi þjálfari er Daniel Kristiansen og var hann á sínum stað á miðjunni. Fjórir ungir leikmenn voru í byrjunarliði KF, fæddir árið 2007-8.

Dalvík/Reynir fékk vítaspyrnu á 12. mínútu leiksins og úr henni skoraði fyrrum leikmaður KF, Sævar Þór Fylkisson, staðan orðin 1-0. Dalvík bætti við öðru marki á 21. mínútu þegar Remi Marie skoraði, hans annað mark í þremur leikjum með liðinu.

KF svaraði fljótt en á 32. mínútu skoraði Alex Helgi Óskarsson sitt fyrsta mark fyrir meistaraflokk KF, en hann er fæddur árið 2007 og á skráða 7 KSÍ leiki fyrir KF. Staðan orðin 2-1, en skömmu áður hafði Daniel Kristiansen fengið gult spjald hjá KF. Staðan var 2-1 í hálfleik.

D/R gerðu eina skiptingu í hálfleik og Friðrik Örn fékk gultspjald í upphafi síðari hálfleiks hjá KF. Bæði lið gerðu svo skiptingar í síðari hálfleik og allt stefndi í sigur heimamanna. Á 82. mínútu fékk Friðrik Örn leikmaður KF sitt annað gula spjald eftir fólskulegt brot á leikmanni heimamanna sem þurfti að yfirgefa völlinn og var liðið búið með allar skiptingar. Liðin spiluðu því 10 á móti 10 síðustu mínútur leiksins. Dalvík/Reynir skoraði sitt þriðja mark á 89. mínútu þegar Björgvin Bjarnason skoraði.

Lokatölur 3-1 fyrir Dalvík/Reyni.