Umfjöllun og upphitun fyrir leiki KF eru í boði Siglufjarðar apóteks og ChitoCare Beauty sem eru aðalstyrktaraðilar, smellið á tenglana til að sjá vöruframboðið og þjónustu þeirra á netinu.
Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætir Knattspyrnufélagi Vesturbæjar laugardaginn 19. júní kl. 16:00 á Ólafsfjarðarvelli. Leikurinn er í 7. umferð Íslandsmótsins. KV er enn ósigrað í fyrstu 6 leikjunum en liðið hefur unnið 2 leiki og gert 4 jafntefli. KF hefur gert jafntefli í síðustu tveimur leikjum en er með þrjá sigra og eitt tap í þessum fyrstu sex leikjum mótsins. Liðið hefur farið vel af stað en voru heppnir að krækja í jafntefli í síðasta leik gegn Magna, þar sem markið kom í blálokin sem gaf stigið. Deildin er mjög jöfn þessar fyrstu sex umferðir og munar aðeins 5 stigum á efsta sæti og 9. sæti þegar þetta er skrifað.
KF getur með sigri komist í efsta sæti deildarinnar ef önnur úrslit verða hagstæð, en liðið er sem stendur í 2. sæti en nokkrir leikir verða búnir þegar liðið hefur leik gegn KV og getur því færst neðar í töflunni.
Bæði lið hafa ekki leikið síðan 10. júní og hafa því fengið gott frí til að undirbúa þennan leik og leikmenn að jafna sig á smávægilegum meiðslum.
Veðbankar Coolbet veðja á heimasigur í þessum leik en síður á jafntefli eða útisigur. Sá sem þetta skrifar reiknar hinsvegar með jöfnum leik en enginn leikur er léttur í þessari erfiðu deild.
Stuðningsmenn eru hvattir til að mæta og láta í sér heyra á vellinum.
KF leikur eftir þennan leik við Njarðvík 26. júní og Fjarðabyggð 30. júní á Ólafsfjarðarvelli.