Arion banki í Fjallabyggð er styrktaraðili fréttaumfjallana um Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Einherji frá Vopnafirði leika á Ólafsfjarðarvelli, fimmtudaginn 26. júlí kl. 19:15. Lið Einherja er í 4. sæti deildarinnar með 18 stig og er á mikilli siglingu. Liðið hefur unnið síðust 4 leiki sína og skorað í þeim 12 mörk. Markahæsti maður Einherja er Númi Kárason með 8 mörk í 11 leikjum. Einherji hefur unnið 6 leiki og tapað 4, skorað 20 mörk og fengið á sig 21 mark. Þeir skora því um 2 mörk í leik að meðaltali. Einherji vann báða leikina gegn KF á Íslandsmótinu í fyrra í 3. deild, og einnig fyrri leik liðana á mótinu í ár. Einherji eiga leik við Vængi Júpíters strax á sunnudaginn þann 29. júlí, mögulega þarf liðið að dreifa álaginu á leikmenn og gera breytingar á liðinu á milli leikja.

KF hefur sigrað 2 leiki af síðustu 5 í deildinni og gert eitt jafntefli og tapað einum leik. Liðið er nú í 8. sæti, sex stigum frá fallsæti, en aðeins 5 stigum frá 3. sæti deildarinnar. Sjö umferðir eru eftir af mótinu, sem þýðir að það eru 21 stig í pottinum fyrir KF. Liðið hefur verið að spila ágætlega í síðustu leikjum og sótt dýrmæt stig. Markahæsti maður liðsins er Björn Andri með 5 mörk.

Það má búast við Einherjamönnum mjög sterkum inn í þennan leik, en KF er særður björn eftir grátlegt tap í síðasta leik, þar sem sigurmarkið kom í uppbótartíma.