Arion banki í Fjallabyggð er styrktaraðili fréttaumfjallana um Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í sumar.

Önnur umferð Íslandsmótsins í 3. deild er hafin, og leikur KF í dag við Augnablik og fer leikurinn fram á Akureyri á gervigrasi KA kl. 15:30. Leikurinn átti að fara fram á Ólafsfjarðarvelli en völlurinn er ekki tilbúinn fyrir knattspyrnuleik.

KF tapaði naumlega gegn KFG í fyrstu umferð á meðan Augnablik vann Dalvík/Reyni 3-1. KF hefur ekki mætt Augnablik síðustu árin, en liðið hefur verið í 4. deildinni en liðið komst í gegnum úrslitakeppnina í fyrra og leikur nú í 3. deildinni. Þekktustu nöfnin hjá Augnablik eru Jökull Elísabetarson (þjálfari), Ellert Hreinsson og Kári Ársælsson en þeir eru leikreyndir leikmenn úr efstudeild.

Einn leikmaður Augnabliks hefur leikið fyrir KF, en það er Guðjón Gunnarsson, hann lék með KS/Leiftri árið 2008-2009 og á 25 leiki fyrir félagið og skoraði 4 mörk. Þá skipti Magnús Aron yfir í Augnablik núna í maí.

Nokkur félagskipti voru í liði KF skömmu áður en félagskiptaglugganum var lokað. Anton Örn Pálsson fór til KA, Gunnar Darri Bergvinsson fór til KA, Magnús Aron Sigurðsson fór til Augnabliks en hann lék 16 leiki fyrir KF í deildinni í fyrra. Marinó Snær Birgisson fór til Magna og var lánaðar áfram til Austra, Oddgeir Logi Gíslason fór aftur til Magna, en hann var lánsmaður hjá KF í vor. Þá hafði Þorsteinn Már Þorvaldsson aftur félagskipti til KA.

KF náði hins vegar í nokkra leikmenn nú skömmu fyrir mót, meðal annars Christopher Thor Oatman sem er frá Kanada og e fæddur árið 1998.  Hrannar Snær Magnússon kom frá KA í mars, Ljubomir Delic kom í apríl en hann er frá Serbíu og lék með KF á síðasta tímabili.  Þá kom Sindri Leó Svavarsson frá Dalvík núna í maí en hann er fæddur árið 2001.

Stuðningsmenn KF eru hvattir til að kíkja á leikinn og styðja liðið í þessum leik. Búast má við hörkuleik og Augnablik er til alls líklegt í sumar. KF ætlar að gera atlögu að efstu sætunum eins og í fyrra, en mótið er stutt og mikilvægt að ná strax inn stigum.

Þessi umfjöllun er í boði Arion banka í Fjallabyggð.