KF mætir Augnablik í Kópavogi – Umfjöllun í boði Arion banka

Arion banki í Fjallabyggð er styrktaraðili fréttaumfjallana um Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætir Augnablik í Fífunni í Kópavogi kl. 15:00 í dag. Leikurinn er í 11. umferð Íslandsmótsins í 3.deild karla. KF vann fyrri leik liðana 2-0 í vor en staða liðanna er mjög svipuð í deildinni fyrir þennan leik. Bæði lið eru með 13 stig og er KF með betra markahlutfall og er í 7. sæti en Augnablik í 8. sæti fyrir þennan leik. Augnablik hafa fengið á sig 23 mörk í 10 leikjum en aðeins skorað 14 mörk. KF hefur skorað 13 mörk og fengið á sig 13 í 10 leikjum. Með sigri og hagstæðum úrslitum getur KF komist í 6. sæti ef Einherji sigrar ekki KFG í dag.

Augnablik hefur aðeins unnið 1 leik af síðustu 5 leikjum liðsins, og kom síðasti sigur gegn Einherja 23. júní. Í liðinu leika margir reynslumiklir leikmenn sem hafa leikið í efstu deildum á Íslandi, þetta eru Jökull Elísabetarson, Kári Ársælsson, Guðmundur Pétursson og Ellert Hreinsson. Liðið komst upp úr 4. deild í fyrra, vann B-riðil og komst í gegnum úrslitakeppnina ásamt KH. Hjörtur Júlíus Hjartarson lék með liðinu í fyrra og skoraði hann 18 mörk fyrir þá og var markahæstur, en liðinu hefur vantað öflugan markaskorara í sumar. Þá hefur Guðmundur Pétursson ekki enn leikið í ár, en hann skoraði 9 mörk í 12 leikjum á síðasta tímabili fyrir Augnablik.

KF vann stórsigur í síðustu umferð og koma með mikið sjálfstraust í þennan leik og ætla sér að fylgja eftir góðu gengi úr síðasta leik. KF hefur aðeins tapað einum af síðustu 5 leikjum, unnið þrjá sigra og gert eitt jafntefli. Nokkrar breytingar hafa orðið í félagaskiptaglugganum hjá KF, Baldvin Freyr er farinn til Skallagríms og Austin Diaz er kominn inn sem nýr leikmaður.