KF mætir Ægi í Þorlákshöfn – Umfjöllun í boði Arion banka

Arion banki í Fjallabyggð er styrktaraðili fréttaumfjallana um Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í sumar.

KF leikur mjög mikilvægan leik í dag í Þorlákshöfn gegn heimamönnum í Ægi. KF getur með sigri komist í 3. sæti deildarinnar eftir nokkuð hagstæð úrslit annara liða í þessari umferð Íslandsmótsins. Eftir þennan leik þá eru aðeins 3 leikir eftir í deildinni, og tveir þeirra fara fram á heimavelli KF í Ólafsfirði. Ægir hefur átt erfitt mót, þeir hafa aðeins unnið 2 heimaleiki af 6 og eru í næstneðsta sæti með aðeins 11 stig. Liðið er því í mikilli fallbaráttu og er 8 stigum á eftir KV sem er í 8. sæti deildarinnar. KF þarf að spila til sigurs þessum leik til að halda möguleikanum opnum að ná 2. sæti deildarinnar í lokaumferðinni. Allt stefnir í æsispennandi lokaumferðir á Íslandsmótinu í 3. deild.

Tveir leikmenn KF eru í leikbanni í þessum leik, en það eru Ljubomir Delic og Andri Snær Sævarsson. Andri er lánsmaður frá KA og hefur spilað 16 leiki í deild og bikar fyrir KF.  Ljubomir er að spila sitt annað tímabil fyrir KF, en hann hefur leikið 32 leiki fyrir félagið og skorað 9 mörk. Hann hefur skorað 3 mörk í 15 leikjum í deild og bikar í ár og hefur  verið óheppinn að ná ekki fleiri mörkum inn. Ljubo er fastamaður í liðinni og því vont að missa hann í leikbann.

KF hefur aðeins unnið 1 útileik af 7 í sumar, og má því búast við erfiðum leik þar sem Ægismenn eru að berjast fyrir lífi sínu í deildinni. KF hefur unnið þrjá síðustu leiki gegn Ægi. Ægismenn hafa aðeins unnið einn leik af síðustu 5 í deildinni á meðan KF hefur unnið 4 af síðustu 5 í deildinni.

Leikurinn hefst kl. 16:00 í dag, og nánar verður greint frá úrslitum leiksins á vefnum eftir leikinn.