KF kvaddi deildina með stigi á heimavelli

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Völsungur frá Húsavík léku í lokaumferðinni í 2. deild karla í knattspyrnu á föstudag. Leiknum var flýtt um einn dag sökum rigningarspá í Fjallabyggð. Þetta var leikur þar sem spilað var upp á heiðurinn, enda var KF fallið og Völsungur búinn að tryggja sitt sæti. Halldór Ingvar var kominn aftur í markið hjá KF en Isaac Sutil Maldonado stóð vaktina í síðasta leik gegn Njarðvík. Svo fór að gestirnir frá Húsavík skoruðu fyrsta mark leiksins á 10. mínútu. KF jafnaði leikinn rétt fyrir hlé, og var þar að verki hinn ungi og efnilegi Valur Reykjalín Þrastarson(17 ára), með sitt fyrsta mark fyrir meistaraflokk KF í 17 leikjum.  Hann spilar einnig fyrir 2. flokk í sameiginlegu liði KF/Völsungs, svo það hefur ekki verið leiðinlegt fyrir hann að skora í þessum leik. Staðan var 1-1 í hálfleik, en engin mörk voru skoruð í þeim síðari og skiptu því liðin með sér stigunum. Leikskýrslu KSÍ má lesa hér.

KF og Ægir falla því úr 2. deild karla í ár og hafa skipti við Tindastól og Víði sem unnu sér sæti í 2. deildinni að ári. 3. deildin er aðeins 10 liða deild og eru því aðeins leiknir 18 leikir þar, sem þýðir 9 heimaleikir í Fjallabyggð að ári. Nágrannarnir í Dalvík/Reyni leika í 3. deildinni svo við sjáum grannaslag að ári. Það verður gaman að sjá hvaða breytingar verða gerðar á  KF liðinu eftir þessa leiktíð og hvernig þjálfaramálin verða.

kf-thordur-birgisson