KF lék við Hamar í dag í loka leik deildarinnar í ár á Grýluvelli í Hveragerði. Leiknum lauk með 2-2 jafntefli sem dugði KF til að halda öðru sæti deildarinnar. Leikurinn var grófur á köflum og mikil átök urðu í stúkunni meðal stuðningsmanna og var einn stuðningsmaður KF fluttur rotaður með sjúkrabörum í burtu.

Hamar skoraði mark rétt fyrir hálfleikinn, en það var dæmt af vegna brots sem var á markverði KF í teignum.  Staðan var markalaus í hálfleik en hlutirnir fóru að gerast strax eftir leikhlé.

Jón Björgvin Kristjánsson gerði fyrsta mark leiksins fyrir KF á 46. mínútu og kom þeim í 0-1.  Abdoulaye Ndiaye jafnaði leikinn úr vítaspyrnu á 59. mínútu fyrir Hamar. Þórður Birgisson taldi sig hafa skorað gott mark og fagnaði vel, en það var dæmt rangstæða eftir fundarhöld dómara. Aron Már Smárason kom Hamar í 2-1 með marki á 69. mínútu eftir sendingu frá Ragnari Valberg og útlitið var ekki bjart fyrir KF. Það var hins vegar enginn annar en Þórður Birgisson sem  tryggði KF eitt stig og sæti í 1. deild karla í knattspyrnu með mark eftir hornspyrnu á 87. mínútu.

Leikskýrslu KSÍ má lesa hér.

Völsungur vann Njarðvík í sínum leik og varð því 2. deildar meistari ári 2012 !