KF komið í sjötta sæti eftir sigur á Sindra – Umfjöllun í boði Arion banka
Arion banki í Fjallabyggð er styrktaraðili fréttaumfjallana um Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í sumar.
Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Sindra á Hornafirði í dag í lokaleik 13. umferðar í 3. deild karla. Sex stig skyldu liðin að í dag en Sindri var í 9. sæti með 10 stig en KF var í 8. sæti með 16 stig. Búist var við hörkuleik en Sindramenn hafa haft mjög gott tak á KF undanfarin ár og hafði unnið síðustu 5 leiki liðins með nokkrum yfirburðum. KF komu því úthvíldir og með gott leikplan en liðið gisti á Fáskrúðsfirði nóttina áður til að stytta ferðalagið á Hornafjörð. KF hafði ekki unnið neinn útileik í deildinni í sumar í sex leikjum, en aðeins náð einu jafntefli.
Björn Andri, markahæsti maður KF byrjaði á bekknum, en hann er í mikilli baráttu um byrjunarliðssæti við Austin Diaz sem hefur byrjaði vel í sínum fyrstu leikjum fyrir félagið. Grétar Áki var fyrirliði liðsins í þessum leik, en Halldór Ingvar markmaður hefur gengt því hlutverki undanfarin ár.
Það var bjart í veðri þegar leikurinn hófst og hitinn um 14 gráður, hægur vindur og aðstæður til fótboltaiðkunar til fyrirmyndar. KF byrjaði leikinn betur og náðu að skora mark snemma í fyrri hálfleik eða á 14. mínútu, og var þar að verki Friðrik Örn Ásgeirsson, en markið var sögulegt, en þetta var hans fyrsta mark fyrir félagið í 56 meistaraflokks leikjum í deild og bikar. KF var betra liðið í fyrri hálfleik og hélt boltanum vel og náðu góðu spili upp völlinn. Staðan var 0-1 fyrir KF í hálfleik en Sindri gerði strax eina skiptingu á 46. mínútu. Í síðari hálfleik þá var Sindri meira með boltann án þess að ná að skapa sér hættuleg færi. KF beitti skyndisóknum þegar þeir gátu í síðari hálfleik. Þegar leið á síðari hálfleik gerðu bæði lið tvær skiptingar til að fá ferska menn inn á en KF skipti Birni Andra inná og síðar Halldóri Loga þegar skammt var eftir. KF hélt út og landaði dýrmætum 0-1 sigri á þessum erfiða útivelli.
KF er nú komið í 6. sæti með 19 stig, en er með lakari markatölu en KV, KF er nú 5 stigum frá 2. sæti deildarinnar, en það þarf margt að gerast svo að liðið komist á þann stað á þessu tímabili. En með góðum úrslitum er raunhæft að liðið geti náð 3.-4. sæti deildarinnar eins og staðan er núna og eins ef önnur úrslit verða liðinu hagstæð. Þetta var fyrsti útileikjasigurinn hjá KF í sumar en liðið hafði aðeins náð í 1 stig í 6 útileikjum fyrir þennan leik.
Næsti leikur KF er á Ólafsfjarðarvelli gegn Vængjum Júpíters, laugardaginn 18. ágúst.