KF komið áfram í Mjólkurbikarnum eftir framlengdan leik

KF og Nökkvi mættust í dag á Akureyri í 1. umferð Mjólkurbikarsins. Nökkvi er lið sem ekki margir þekkja, en liðið leikur utan deilda og er skipað leikmönnum á öllum aldri og eru nokkrir reynsluboltar sem eru komnir á fimmtugsaldurinn. Fyrirfram var því búist við þægilegum leik fyrir strákana úr Fjallabyggð, en liðin höfðu mæst fyrir ári síðan og vann KF þá stórsigur.

Nökkvamenn komu á óvart í þessum leik og ætluðu að selja sig dýrt. Þeir skoruðu óvænt fyrsta mark leiksins þegar Jón Friðrik Þorgrímsson skoraði á 40. mínútu, og var staðan því 1-0 fyrir Nökkva í hálfleik. Þjálfari KF hefur ekki verið hress í hálfleik með stöðu mála, því hann gerði strax tvöfalda skiptingu eftir hálfleikinn, og inná kom Ljubomir Delic og Jakob Auðun, og útaf fóru Vitor og Halldór Logi.

Nökkvi fékk svo vítaspyrnu á 56. mínútu og úr henni skoraði þeirra reynslumesti leikmaður, Davíð Rúnar Bjarnason, og kom þeim í 2-0 ! Davíð Rúnar lék í mörg ár með KA og hefur spilað 169 leiki í efstu tveimur deildum á Ísland.

KF gerði skiptingu nokkrum mínútum síðar og kom Óliver inná fyrir Sævar Þór.  Á 61. mínútu gerðu Nökkvamenn sjálfsmark og var staðan því orðin 2-1 þegar tæpur hálftími var eftir. Á 87. mínútu kom Ljubomir Delic KF til bjargar og jafnaði leikinn í 2-2. Í uppbótartími var Sævar Péturssyni leikmanni Nökkva vikið af leikvelli með beint rautt spjald. Sævar einnig reynslumikill leikamaður, 45 ára gamall, með 147 leiki í meistaraflokki.

Leikurinn fór því í framlengingu, og léku Nökkvamenn einum leikmanni færri í framlengingunni. Anton kom inná fyrir Hákon hjá KF í framlengingunni og á 110. mínútu komst KF yfir í fyrsta sinn þegar Óliver Jóhannsson skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið en hann er nýkominn frá Einherja. Staðan 2-3 þegar um 10 mínútur voru eftir. Grétar Áki innsiglaði svo sigurinn á 117. mínútu með marki úr vítaspyrnu og kom KF í 2-4 þegar skammt var eftir.

KF vann leikinn 2-4 og var óvænt mótstaða í liði Nökkva. KF mætir því Magna frá Grenivík í næstu umferð.