KF jafnaði í lokin gegn Leikni – Umfjöllun í boði Siglufjarðar apóteks og ChitoCare Beauty

Umfjöllun um leiki KF eru í boði Siglufjarðar apóteks og ChitoCare Beauty sem eru aðalstyrktaraðilar, smellið á tenglana til að sjá vöruframboðið og þjónustu þeirra á netinu.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar heimsótti Leikni í Fjarðabyggð í 14. umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu karla í 2. deild. KF þurfti á sigri að halda til að halda sér í 2. sæti í deildinni þar sem deildin er mjög jöfn. Leiknir var í 10. sæti með 14 stig fyrir þennan leik. KF vann fyrir leik liðana á Ólafsfjarðarvelli í vor 1-0.  Lið Leiknis er byggt upp á erlendum leikmönnum og voru sex í byrjunarliðinu í þessum leik og þrír á bekknum. KF hafði unnið þrjá leiki í röð og voru miklar væntingar stuðningsmanna fyrir þennan leik að sjá enn einn sigurinn.

Það voru heimamenn sem byrjuðu betur og náðu inn fyrsta markinu á 15. mínútu Stefán Magnússon skoraði sitt annað mark á leiktíðinni. KF jafnaði leikinn skömmu fyrir hálfleik þegar Bjarki Baldursson skoraði á 39. mínútu. Bjarki var að skora sitt fyrsta mark í deild og bikar í meistaraflokki, og fyrsta markið fyrir KF í 30 leikjum. Staðan var því 1-1 í hálfleik.

Markaskorari Leiknis fékk skiptingu á 59. mínútu og aðeins mínútu síðar skoraði Hilmar Bjartþórsson og kom heimamönnum aftur yfir, staðan 2-1 og rúmur hálftími eftir.

Leiknis menn gerðu fljótlega eftir markið tvær skiptingar og komu tveir erlendir leikmenn inná til að fríska upp á leik þeirra. Þjálfari KF gerði einnig tvöfalda skiptingu á 80. mínútu þegar Birkir Már Hauksson og Þorsteinn Þorvaldsson komu inná fyrir Hákon Leó og Áka Sölvason.

KF náði loksins jöfnunarmarkinu sem beðið hafði verið eftir á 88. mínútu þegar Cameron Botes skoraði og jafnaði leikinn í 2-2 þegar skammt var eftir. Cameron var að skora sitt fyrsta mark í deildinni fyrir KF en hann hafði áður skoraði í Mjólkurbikarnum.

KF náði einni skiptingu í uppbótartíma þegar Sævar Fylkisson kom inná fyrir Ljobomir Delic.

Niðurstaðan var 2-2 jafntefli í þessum leik, og nokkur vonbrigði fyrir KF að landa ekki sigri. KF er nú í 4. sæti deildarinnar með 24 stig eftir úrslit dagsins.