KF í góðri stöðu eftir sigur á heimavelli – Umfjöllun í boði Arion banka

Arion banki í Fjallabyggð er styrktaraðili fréttaumfjallana um Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Vængir Júpíters mættust á Ólafsfjarðarvelli í dag í mikilvægum leik fyrir bæði liðin. Gert var ráð fyrir jöfnum leik, enda voru bæði liðin með svipaðan árangur í leikjum sumarsins.  Bæði liðin hefðu með sigri nálgast 2. sæti deildarinnar og var því mikið í húfi enda fáir leikir eftir í deildinni.

Slobodan Milisic þjálfari KF gerði enga breytingu á byrjunarliði sínu sem vann góðan sigur á Sindra á útivelli í síðustu umferð.  Algengt er að hann geri 1-3 breytingar á milli leikja, en nú virðist hann hafa fundið ákveðið jafnvægi í þessu byrjunarliði. Baráttan um sæti í byrjunarliðinu er hörð og margir góðir leikmenn sem bíða tækifæris á bekknum og koma inná sem varamenn til að sýna að þeir eigi heima í byrjunarliðinu.

Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik en Vængir Júpiters fengu þó 2 gul spjöld. Strax í síðari hálfleik þá gerir þjálfari Vængjanna eina skiptingu, en hann hefur ekki verið ánægður með liðið eftir fyrri hálfleikinn. Á 64. mínútu leiksins kemur fyrsta mark leiksins og var það Hákon Leó (Nr.3) sem gerði það fyrir KF, hans fyrsta mark í deild og bikar síðan 2016 og hans annað mark fyrir félagið í 51 leik. Aðeins fjórum mínútum síðar skorar fyrirliðinn Grétar Áki (Nr. 11) og kemur KF í þægilega stöðu, 2-0 þegar um 22 mínútur voru eftir. Strax eftir markið fer Austin Diaz útaf fyrir Björn Andra, markahæsta mann KF í sumar. Vængirnir gerðu einnig strax tvöfalda skiptingu eftir annað mark KF, og ætluðu að bæta í sóknina og fá ferska leikmenn inn á völlinn. Ljubomir Delic fór útaf fyrir Halldór Loga, en Ljubo var á gulu spjaldi, en Halldór Logi náði sér strax í gult spjald þegar hann kom inná. Aksentije Milisic fór útaf fyrir Kristófer Andra þegar um 5 mínútur voru eftir af leiktímanum. Vængirnir höfðu enn tíma fyrir tvöfalda skiptingu þegar um 3 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.

KF hélt út og Halldór Ingvar varði allt sem kom á markið og liðið landaði gríðarlega mikilvægum 2-0 sigri þegar aðeins 4 leikir eru eftir af mótinu. Liðið er nú komið í 4. sæti þegar 12 stig eru eftir í pottinum. KF er nú aðeins tveimur stigum frá KH sem er í 2. sæti og einu stigi frá KFG sem er í 3. sæti.

KF leikur næst við Ægi í Þorlákshöfn, laugardaginn 25. ágúst kl. 16:00.

kf-