KF í bílstjórasætinu eftir stórsigur á HK

KF vann óvæntan stórsigur á sterku liði HK á Kópavogsvelli. KF fékk óskabyrjun og komst yfir eftir 46 sekúndur með skallamarki frá Magnúsi Blöndal eftir aukaspyrnu frá hægri kantinum og setti það strax tóninn í leiknum. KF bætti við öðru skallamarki á 19. mínútu og var þar að verki Sigurjón Fannar Sigurðsson eftir hornspyrnu. Staðan var því vænlega í hálfleik, 0-2 fyrir KF. Síðasta mark leiksins gerði Jón Björgvin Kristjánsson á 84. mínútu eftir skyndisókn með stoðsendingu frá Þórði Birgissyni og gulltryggði glæsilegan sigur KF á HK.

HK gekk erfiðlega að skapa sér opin færi í leiknum því KF lék mjög þéttan varnarleik. KF nýtti sér vel í dag uppstillt atriði eins og aukaspyrnur og hornspyrnur.

KF er nú komið í 2. sæti deildarinnar og getur með sigri í síðustu þremur leikjunum tryggt sig upp í 1. deild karla í knattspyrnu.  KF er því í bílstjórasætinu og stjórna sínum örlögum sjálfir.

Leikskýrslu KSÍ má lesa hér.