KF heimsótti Völsung á Húsavík – Umfjöllun í boði Siglufjarðar apóteks og ChitoCare Beauty

Umfjöllun um leiki KF eru í boði Siglufjarðar apóteks og ChitoCare Beauty sem eru aðalstyrktaraðilar, smellið á tenglana til að sjá vöruframboðið og þjónustu þeirra á netinu.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar heimsótti Völsung á Húsavík í 4. umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu karla. Völsungur var í 7. sæti með 4 stig eftir þrjár umferðir en KF var í efsta sæti með 9 stig. Völsungur var búinn að skora 7 mörk í fyrstu þremur leikjunum og var Sæþór Olgeirsson búinn að skora 5 þeirra. Liðin hafa mæst alls 25 sinnum sl. áratug og þekkja því vel leik hvors annars. Flestir þessara leikja hafa verið jafnir en Völsungur er með 9 sigra, 6 fóru jafntefli og KF hafði unnið 10 leiki. Liðin mættust í deildinni í fyrra og vann Völsungur leikinn á Ólafsfjarðarvelli 1-2 en KF vann á Húsavík 2-3.

Það var jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik en bæði lið áttu gott stutt spil en inná milli komu svo ónákvæmar og erfiðar sendingar og voru þannig ekki mikið um marktækifæri. Völsungur fékk þó 2-3 tækifæri en KF átti inná milli hættulegar sóknir en ekki opin tækifæri. Hákon Leó átti þó fast skot fyrir utan teig sem fór rétt framhjá stönginni. KF pressaði hátt í fyrri hálfleik á meðan Völsungur reyndi að spila boltanum í útsparki.

Völsungur skoraði fyrsta mark leiksins á 42. mínútu þegar Sæþór komst einn innfyrir eftir frábæra stungusendingu og kláraði færi vel. Staðan orðin 1-0 fyrir heimamenn. Skömmu síðar komst Völsungur aftur í færi þegar Sæþór slapp aftur í gegn en varnarmenn KF náðu að loka leiðinni að markinu. Staðan var því 1-0 í hálfleik.

Völsungur byrjaði sterkt í síðari hálfleik og fengu hornspyrnu á 47. mínútu. Boltinn kom hár inn á teig og datt niður við mitt markið og á skallan á Arnari Kristjánssyni leikmanni Völsungs sem skoraði einfalt án þess að Halldór kæmi neinum vörnum við.  Staðan orðin 2-0 og á brattann að sækja fyrir KF.

KF hélt boltanum áætlega innan liðsins eftir annað mark Völsungs, en sköpuðu sér ekki nein opin færi. Völsungur gerði skiptingu á 62. mínútu. Þeir fengu skömmu síðar hornspyrnu sem reyndist hættuleg, en úr því kom ágætis færi en boltinn fór framhjá markinu í þetta skiptið.

KF gerði tvöfalda skiptingu þegar um 16. mínútur voru eftir af leiknum. Aðeins nokkrum mínútum síðar skoraði Oumar frábært mark með skoti utan teigs og yfir markmann Völsungs. Staðan orðin 2-1 og enn var von á jöfnunarmarki. KF skoraði svo annað mark sem dæmt var af vegna rangstæðu eða brots, en góður bolti kom inn á teiginn og skallaði sóknarmaður KF boltann í netið.

KF gerði aðra skiptingu þegar rúmar 10 mínútur voru eftir af leiknum. Bæði lið sóttu til skiptis og var Sæþór hættulegur hjá Völsungi.

KF færði sig framar á völlinn eftir því sem leið á leikinn og gerðu allt til að finna jöfnunarmarkið. Fjórum mínútum var bætt við í uppbótartíma og KF reyndi að senda háa bolta inn á teiginn á lokamínútunum. KF gerði eina skiptingu vegna meiðsla á lokamínútunni.

Völsungur hélt út og hreinsuðu frá alla bolta sem komu í átt að markinu. Niðurstaðan 2-1 sigur fyrir Völsung og fyrsta tap KF á tímabilinu í deildinni.

 

Siglufjarðar Apótek